Forsvarsmenn Hótel Adam fengu á föstudag tvo sólarhringa til að undirbúa lokun hótelsins, svo hægt væri að gera ráðstafanir fyrir þá ferðamenn sem áttu bókað á hótelinu. Á mánudag mun því Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu, að kröfu Sýslumanns, loka hótelinu, samkvæmt frétt vísis um málið .

Forsaga málsins er sú að þann 14. maí síðastliðinn óskaði Íslandsbanki eftir nauðungarsölu á húsnæðinu. Féllst sýslumaður á það og gaf R. Guðmundsson ehf, eiganda og rekstraraðila hótelsins, mánuð til að ganga frá greiðslum, ellegar yrði húsnæðið selt á nauðungaruppboði.

Ítrekað hefur verið fjallað um málefni Hótel Adam, en meðal annars hefur því verið gert fyrir dómstólum að greiða vangoldin laun , og lögregla þurft að innsigla herbergi vegna þess að herbergjafjöldi í útleigu fór yfir þann fjölda sem leyfi var fyrir. Þá voru fluttar fréttir af því árið 2016 að hótelið varaði gesti við því að drekka vatn úr krananum, en seldi þeim í staðinn vatnsflöskur á 400 krónur stykkið, sem síðar kom í ljós að innihéldu kranavatn.