Í gær ákvað Menntamálaráðherra að semja við Háskólann á Akureyri um að taka við menntun lögreglumanna, samhliða því að lögreglunámið verði fært úr því formi sem það hefur verið í og gert að háskólanámi.

Mun HA sjá um kennslu og rannsóknarstarfsemi í lögreglufræðum.

Uppfyllti ekki hæfniskröfur

Sóttu fjórir háskólar um að taka við náminu, en einungis þrjár þeirra voru lagðar fyrir matsnefnd, þar sem umsókn Háskólans á Bifröst þótti ekki uppfylla hæfnikröfur, en þær fólust í því að skólinn þyrfti að vera með sálfræðideild.

Skoraði Háskóli Íslands hæst í úttekt matsnefndarinnar, 128 af 135, Háskólinn á Akureyri féll 116 stig og Háskólinn í Reykjavík fékk 110 stig.

Styrkja Háskólann á Akureyri

Valdi Menntamálaráðherra því ekki þann skóla sem skoraði hæst, en rökstuðningur ráðuneytisins er að með þessari ákvörðun verði skotið styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi Háskólans á Akureyri.

Auk þess eru aðstæður þar eru taldar þannig að nemendum alls staðar af landinu sé kleyft að leggja stund á lögreglunám.

Ómálefnaleg og skortur á fjarnámi

Rektor Háskólans á Bifröst, Vilhjálmur Egilsson, segir kröfuna um sálfræðideild ómálefnalega og til þess fallin að ýta Bifröst út úr matsferlinu.

„Í útboðslýsingu var algerlega litið fram hjá því að það er mikill kostur að geta kennt þetta nám í fjarnámi. Það hefur mikla þýðingu þegar við lítum 5 til 10 ár fram í tímann því þá verða lögreglumenn með háskólanám að vinna með mönnum sem hafa lokið lögregluskólanum. Þá mun háskólaprófið vega þyngra við ráðningar í stöður. Fjarnámið myndi gefa lögreglumönnum raunhæfa möguleika á að bæta við sig háskólanámi,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.