Lögsóknum bandaríska alríkisins og flestra fylkja gegn Facebook fyrir samkeppnislagabrot var vísað frá fyrir alríkisdómstól. Frávísunin er sögð stórsigur fyrir samfélagsmiðlarisann, hvers hlutabréf hækkuðu um 3,7% í kjölfarið.

Dómarinn sagði lögsóknina ekki bera félagið nógu þungum sökum til að uppfylla skilyrði einokunartilburða, en gaf þó ákæruvaldinu tækifæri á að bæta úr því. Yfirvöld fengu 30 daga til að leggja málið fram að nýju, eftir að búið væri að bæta úr aðfinnslum dómarans.

Eitt af markmiðum yfirvalda í málinu er að snúa við yfirtöku Facebook á samfélagsmiðlinum Instagram og spjallforritinu WhatsApp.

Í málshöfðun Neytenda- og samkeppnisstofu (e. FTC) hélt stofnunin því fram að Facebook hafi gerst brotlegt við samkeppnislög með uppkaupum á upprennandi samkeppnisaðila á samfélagsmiðlamarkaðnum.

Dómarinn taldi ákæruvaldið hinsvegar ekki hafa sýnt nógu vel fram á meginmálatilbúnað sinn: að Facebook hefði einokunarafl á markaðnum.