Samkvæmt nýju deiliskipulagi Reykjavíkurborgar verður lokað fyrir alla umferð einkabíla fram hjá Hlemmi, en Strætó og Borgarlína fari hins vegar eingöngu um þennan hluta Laugavegar og Hverfisgötu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni en hugmyndirnar eru byggðar á tillögum arkitektastofanna Mandaworks og DLD.

Ætlunin er að torginu í kringum Mathöllina verði breytt þannig að það verði „kjörstaður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og góður staður fyrir fólk og viðburði, eftirsóttur bíllaus staður, grænn og lifandi en einnig byrjunarreitur fyrir þau sem ætla í bæinn“.

Jafnframt verða ný gatnamót byggð á mótum Snorrabrautar og Borgartúns ásamt nýju torgi þar. Ástæðan fyrir breytingunum er sögð sú að endurskoða hafi þurft almannarými á svæðinu vegna nýrrar Mathallar á Hlemmi, en jafnframt er hún sögð sú segull sem þurfi til að gera „gera Hlemm að því sem vænst er“.

Hugtakið „virkir ferðamátar“ notað yfir gangandi og hjólandi

Í röksemdum fyrir breytingunum er vísað til talningar frá því í október 2019 þar sem fram kom að 70%, eða 17 þúsund manns, af heildarfjölda vegfaranda á Hlemmsvæðinu hafi verið gangandi.

Skipulagsbreytingarnar eru sagðar munu breyta „aðgengi bílaumferðar um Hlemm til auka rými og aðgengi fyrir virka ferðamáta (gangandi og hjólandi m.a.) og er gert ráð fyrir sérrými almenningssamgangna með stoppistöð á svæðinu. Sérleið fyrir hágæða almenningssamgöngukerfi er skilgreind í gegnum svæðið ásamt leiðbeinandi staðsetningu fyrir stoppistöðvar.“

Helstu breytingarnar eru að:

  • 1.    Nýtt Hlemmtorg verður endurskapað sem almenningsrými fyrir alla aldurshópa með aðgengi fyrir alla.
  • 2.    Akandi umferð verður beint frá torgsvæðinu.
  • 3.    Nýr hjólastígur verður lagður meðfram svæðinu og tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni.
  • 4.    Strætisvögnum og Borgarlínu verður beint niður Hverfisgötu og Laugaveg í sérrými gegnum nýtt torgsvæðið, norðan Hlemms, sem verður mikilvæg miðstöð almenningssamgangna.
  • 5.    Nýtt yfirborðsefni, setaðstaða, leik- og dvalarsvæði ásamt gróðri verða ríkjandi þættir á nýju Hlemmtorgi ásamt vistvænni nálgun á meðhöndlun yfirborðsvatns.
  • 6.    Hágæða biðskýli verða byggð á nýju Hlemmtorgi.
  • 7.    Ný gatnamót verða byggð á mótum Snorrabrautar og Borgartúns ásamt nýju torgi.

Undir yfirskriftinni Glæsilegur miðpunktur segir svo í lokin:

„Að loknum breytingum verður Hlemmur glæsilegur miðpunktur í austurhluta miðborgarinnar. Torgið verður miðstöð fjölbreyttra samgangna, samskipta og lífs. Það er fagnaðarefni að Hlemmur fái loksins verðskuldaða upplyftingu og að þetta mikilvæga svæði í austurhluta miðborgarinnar myndi nú sterka umgjörð utan um sögu svæðisins og það ríka mannlíf sem þar finnst.“