Gísli Halldór Halldórsson
Gísli Halldór Halldórsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Auglýsingar með fallegum fjölskyldum á sínum eftirlætisstöðum við bæinn Selfoss hafa birst á sjónvarps- og tölvuskjáum landsmanna undanfarin misseri, og minna þær nokkuð á svipaða herferð sem Sveitarfélagið Ölfus var með fyrir nokkrum árum.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, segir verkefnið kosta í heild hátt í 40 milljónir en sveitarfélagið leggi til 10 milljónir króna af því.

„Þetta kom þannig til að fyrirtæki á Selfossi komu til sveitarfélagsins og buðu okkur að vera með í átakinu fyrir átta milljónir króna. Við vildum að öll Árborg yrði með svo við ákváðum að bæta tveimur milljónum til viðbótar fyrir restina af sveitarfélaginu, það er Eyrarbakka og Stokkseyri og svo Sandvíkurhrepp hérna á milli Selfoss og strandarinnar,“ segir Gísli Halldór.

„Fyrst var gerð könnun um hvað kæmi í huga landsmanna þegar hugsað væri um Selfoss, og þá var of mikið af því tengt við neikvæða þætti eins og umferðartafir, skyndibita og strípur í hári og það væri lítið annað hér að hafa. Þannig sáu fyrirtækin að fólk þekkti almennt ekki nægilega vel til alls þess jákvæða sem Selfoss hefur upp á að bjóða. Þess vegna þyrfti að styrkja þá ímynd til að laða að bæði gesti sem og nýja íbúa, fjárfestingar og fyrirtæki og þannig fjölbreyttari atvinnutækifæri hingað.“

Töluverðar breytingar eru væntanlegar á bæjarbragnum þegar ný brú verður gerð yfir Ölfus norðan við bæinn. „Mér heyrist að verslunar- og þjónusturekendur við Austurveginn séu hættir að hafa áhyggjur af því, enda sýnir könnunin að umferðin var orðin það mikill átroðningur að fólk sá sér varla fært að stoppa. Núna stefnum við að því að á milli nýju og gömlu brúarinnar verði þjónustuás þar sem Austurvegurinn verður vistleg breiðgata sem verði framhald af nýjum miðbæ og aðdráttarafli í sjálfu sér,“ segir Gísli Halldór.

„Hugmyndin að herferðinni kviknaði upphaflega hjá Sigtúni þróunarfélagi, sem byggir nú yfir 20 þúsund fermetra af nýju þjónustu- og verslunarhúsnæði hér í nýja miðbænum. Uppbyggingin þar verður í þremur áföngum, og um vorið 2021 mega menn búast við sjá þarna þjónustufyrirtæki á besta stað og byrjun á því miðbæjarlífi sem ætlunin er að byggja upp hér. Þarna er verið að taka sögufræg hús sem voru til á Íslandi og setja upp eftirmynd þeirra til að heiðra þá sögu, því fólk er farið að átta sig á að umhverfið þarf að vera örvandi.

Arkitektúr getur haft áhrif á upplifun fólks og geðslag og viljum við ekki gera sömu mistök og annars staðar þar sem fólk upplifir sig í einhverjum austur þýskum kassalega blokkum. Heldur að umhverfið sé lifandi og fólk sæki í miðbæinn, líkt og þegar við heimsækjum gömul og falleg þorp í Evrópu. Þetta verði góður grunnur fyrir það þegar  árin og áratugirnir líða og byggðin vex áfram hérna um Flóann. Þá verður þetta hjartað í ákveðnum borgarkúltúr Árborgarinnar sem þó leyfir fólki meiri tengsl út í fallega náttúruna heldur en í Reykjavík.“

Fimmtungsfjölgun á þremur árum

Selfoss hefur ekki farið varhluta af miklum þrýstingi þeirra sem eru að leita sér að húsnæði vegna lítils lóðaframboðs á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er þriðja árið í röð sem er svona 6% fjölgun hjá okkur, svo þetta er að verða komið upp í 20% fjölgun á þremur árum sem kom aðeins aftan að fólki. Um síðustu áramót voru um tvö til þrjú hundruð íbúðir í byggingu hér og eru lóðir í skipulaginu að tæmast núna á þessu ári,“ segir Gísli Halldór sem segir að ef bærinn hefði stýrt auglýsingaherferðinni hefðu þeir látið hana bíða í um ár.

„En um mánaðamótin næstu munum við byrja að auglýsa lóðir í nýju hverfi þar sem verða um 650 íbúðir, síðan erum við að stækka leikskólana hér tímabundið núna ásamt því að byggja nýjan leikskóla á næsta ári svo við erum að búa okkur undir áframhaldandi vöxt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .