Síðustu tvær vikur hefur Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sent á fimmta tug mála til lögreglu vegna heimagistingar í trássi við nýjar reglur um gistinguna, sem tóku gildi um síðustu áramót.

Heimagisting í gegnum síður eins og Airbnb og aðrar voru til umræðu á opnum fundi um hótel, íbúðahótel og heimagistingu í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi þar sem fjölmargir fundargestir kvörtuðu undan fjölda ferðamanna og ónæði af heimagistingu of fjölda hótela að því er RÚV greinir frá.

Starfsmönnum Sýslumannsins sem sinna þessum málaflokki hefur verið fjölgað í sex, en embættið getur annars vegar lokað starfsemi utan reglna, eða beitt sektum. Nú séu 200 til 300 mál fullrannsökuð og bíða ákvörðunar um viðurlög, en síðan hefur sýslumaður sent tilkynningu um 45 til 50 leyfislausa gististaði til viðbótar til lögreglu á síðustu tveimur vikum.

Sagði fulltrúi Sýslumannsins á fundinum að búið væri að loka einhverjum þessa staða og að búast mætti við að fleirum yrði lokað. Reykjavíkurborg er að hefja viðræður við Airbnb um eftirlit með útleigunni, og er horft þar til fyrirkomulagsins í London og Amsterdam.

Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar segir að Airbnb sjái um að framfylgja reglunum um hámarskdagafjölda. „Eftir það þarftu bara að afhenda Airbnb leyfið,“ segir Helga Björk „Airbnb sér um að framfylgja þessum dagafjölda, þessum 60 eða 90 dögum sem eru í lögum og leyfa fólki að skrá íbúðina sína í þann tíma.“