Haukur B. Sigmarsson framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi sem rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum segir það vonbrigði að hótelið hafi ekki fengið leyfi til að taka á móti ferðamönnum sem gætu þá dvalið í sóttkví á staðnum að því er RÚV greinir frá.

Hótelinu hefur nú verið lokað og flestu af starfsfólki þess sagt upp, en Haukur segir lokunina aðeins tímabundna og staðan verði endurmetin á nýju ári. 61 stöðugildi hafi verið á hótelinu að meðaltali, en fækkað hafi verið eftir uppsagnir ársins og nú verði einungis 13 starfsmenn á eftir til að halda við húsakosti, tækjabúnaði og öðru.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um hótelið sem valið hefur verið í hópi bestu lúxushótela heims , og meðal flottustu hótela Evrópu sem og kallað falinn leyndardómur auk þess sem það var nefnt sérstaklega þegar New York Times mælti með Íslandi sem áfangastaðar fyrir lúxusferðamennsku.

  • Sjá einnig: Fágætisferðamennska í Fljótunum.

Haukur segir vonbrigðin með að þurfa að loka mikil, því fyrirtækið hafi reynt að fá svör við tillögum sínum um að fá að taka við erlendum ferðamönnum og þeir þá dvalið á staðnum í sóttkví, en ekki haft erindi sem erfiði.

Markhópur hótelsins hafi einmitt aðstöðu til að koma sér til landsins óháð almennum flugsamgöngum, þeir geti til dæmis komið með einkaþotum beint til Akureyrar, og Deplar því kjörinn staður til að taka á móti slíkum hópum sem gætu þá dvalið í sóttkví.

Haukir segir mikinn áhuga vera meðal mögulegra viðskiptavina Eleven Experience sem er með lúxusferðamennsku víða um heim, á að fá að koma til Íslands, en forsendur hafi brostið með ákvörðun um tvöfalda skimun við landamærin og fimm til sex daga sóttkví.

Hér má sjá frekari fréttir um Deplar lúxushótelið: