Lyfjaverð á Íslandi er að nær öllum hluta ákveðið af opinberum aðilum og hafa lyfjaframleiðendur lítið um það að segja, að sögn Jakobs Fals Garðarssonar, framkvæmdastjóra Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Skammt er síðan bandarískur fjárfestir, Martin Shkreli, olli töluverðu fjaðrafoki þegar hann greindi frá því að hann hygðist hækka verð á lyfinu Daraprim um ein 5.455%, eða úr 13,5 dölum í 750 dali á hverja töflu. Lyfið er notað gegn ákveðnum tegundum sýkinga og eru það einkum alnæmissjúklingar sem þurfa á lyfinu að halda. Nokkrum dögum síðar var svo ákveðið að minnka hækkunina, en ekki hefur komið fram hvert endanlegt verð á að verða.

„Lyfjaframleiðendur á Íslandi, eða í Evrópu almennt, eru einfaldlega ekki í þeirri stöðu að geta hækkað verð að vild," segir Jakob Falur. „Í raun eru tvær reglur um verðlagningu lyfja eftir því hvort um er að ræða svokölluð almenn lyf eða sjúkrahús- eða sérlyf. Hvað almennu lyfin varðar þá ákvarðar Lyfjagreiðslunefnd verðþak á lyf sem miðast við meðalverð á lyfinu á hinum Norðurlöndunum. Lyfið gæti orðið ódýrara, en það verður aldrei dýrara en þetta meðalverð. Þessi markaður er sérstakur hvað það varðar að í raun er það kaupandinn sem hreinlega ákveður verðið. Stundum fara fram útboð á lyfjum, en þakið er alltaf til staðar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .