Rafíþróttamótið Mid-Season Invitational, sem haldið verður í Laugardalshöll í sumar , mun varlega áætlað skila innlendum aðilum um 300-400 milljónum króna með beinum hætti, en óbein áhrif gætu vegið mun þyngra þegar upp er staðið.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar Íslandsbanka, segir mikil tækifæri fyrir Ísland fólgin í að laða að hingað alþjóðleg rafíþróttamót. Ólafur Hrafn Steinarsson formaður Rafíþróttasambands Íslands segir landið hafa alla innviði og aðra burði til að vera mjög ákjósanlegur staður í því sambandi, enda mótið í sumar eitt stærsta rafíþróttamót heimsins og hörð samkeppni um að fá að halda það.

Má líkja við önnur íþróttastórmót
Björn skiptir efnahagslegum áhrifum af mótinu í þrennt. Fyrst komi beinar tekjur af mótinu sjálfu, leiga á aðstöðu, gisting keppenda og aðstandenda og útgjöld þeirra í mat og annað. Næst komi afleidd starfsemi og utanumhald; allskyns þjónusta í tengslum við mótið og keppendur. Þriðji liðurinn er landkynning, sem ríkir mest óvissa um, en hefur jafnframt möguleikann á því að verða langstærstur þegar upp er staðið.

„Að ákveðnu leyti má bera þetta saman við önnur stórmót í íþróttum, þar sem þú ert annars vegar að líta á beinar tekjur sem fást af því að fólk sem kemur hingað til lands þurfi að gista á hótelum og borða mat og svo framvegis, en síðan er það afleidd starfsemi sem þessu fylgir.“

Hátt í hálfur milljarður varlega áætlað
Varlega áætlað gerir Björn ráð fyrir að þeir muni eyða á bilinu 300-400 milljónum í uppihald heilt yfir. „Þetta miðast við um það bil 40 þúsund kall á dag á hvern aðila, sem er talsvert undir því sem gestir stærri ráðstefna eyða hérna, og því nokkuð varfærið mat. Þeir eru að fara að vera svo lengi að þeir eru kannski ekki að fara að gera jafn mikið og þeir sem staldra skemur við á hverjum einasta degi.“

Við það muni síðan bætast allt umstangið í kring, en Björn segir enn ekki liggja fyrir almennileg greining á umfangi þess. „Sem dæmi lítur allt út fyrir að þessu muni fylgja umfangsmesti innflutningur á tölvu- og útsendingarbúnaði hingað til lands sem um getur. Þetta verður talsvert stærra en stærstu tónleikar sem hér hafa verið haldnir í því sambandi.“

Það muni því hífa heildartöluna upp á við, en á móti dragi áhrif faraldursins á það hvað gestirnir hreinlega geti gert úr henni. „Það eru auðvitað ákveðnar takmarkanir núna á því hvað fólk getur verið að gera á meðan það er á svæðinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .