Ýmsir lykilstjórnendur og Innherjar í Högum hafa á síðustu vikum selt hluti sína í fyrirtækinu.

Þó þeir vilji ekki staðfesta að koma Costco til landsins sé að hafa áhrif á ákvörðunina virðist ljóst að smásölumarkaðurinn verður ekki samur hér á landi þegar þetta annað stærsta smásölufyrirtæki í heiminum verður komið inn á markaðinn.

Mikil áhrif af komu Costco

Greiningarfyrirtækið Zenter gerði skýrslu um komu fyrirtækisins til landsins en samkvæmt niðurstöðu hennar munu áhrif þess verða mikil.

Trausti Haraldsson hvorki staðfesti né neitaði að Hagar hefðu fengið skýrslu fyrirtækisins í hendur. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Lykilmenn selja

Á mánudag seldu framkvæmdastjóri Bónus, Guðmundur Marteinsson og eiginkona hans, Ingibjörg B. Halldórsdóttir allt hlutafé í fyrirtækinu á genginu 49,2, og fengu þau um 100 milljónir króna fyrir.

Í júlí seldi eiginkona Finns Árnasonar forstjóra um milljón hluti í félaginu á gegninum 47,8, en hún á enn hluti í félaginu að andvirði um 200 milljóna króna.

Í sama mánuði seldi framkvæmdastjóri dótturfélags Haga, Már Friðsteinsson hjá Bönunum ehf., allan sinn hlut í fyrirtækinu.

Veltan á íslenskum smásölumarkaði er um 400 milljarðar króna, en heildarvelta Costco í heiminum er rúmir 14 þúsund milljarðar króna.