Ráðherrar heilbrigðismála í Danmörku og Noregi hafa lýst afdráttarlausum vilja til þess að vinna áfram með Íslandi að sameiginlegum innkaupum lyfja. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins .

Í sameiginlegu bréfi Ellenar Trane Nørby, heilbrigðisráðherra Danmerkur og Bent Höie, heilbrigðisráðherra Noregs til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra er þetta áréttað eftir að Svandís óskaði eftir afstöðu ráðherranna til samstarfsins.

Í bréfi ráðherranna segir að þjóðirnar þrjár standi að mörgu leyti frammi fyrir sömu vandamálum og áskorunum á sviði lyfjamála. Þar á meðal sé vandinn við að tryggja nægt framboð nauðsynlegra lyfja og að takast á við vaxandi útgjöld til málaflokksins. Því sé eðlilegt að löndin vinni saman að norrænum lausnum á þessu sviði.