Listamaðurinn Hugleikur Dagsson má ekki selja boli með teikningu af manni að taka víkingaklappið fræga undir nafninu „HÚ!“ þar sem maður, sem Hugleikur kýs að kalla „Grinch“, hefur keypt orðið „HÚH!“ af einkaleyfastofu og aðeins hann má prenta orðið á boli. Frá þessu greinir Hugleikur á Facebook síðu sinni en hann segir málið hafa komið sér mjög á óvart.

Hann segist einnig ekki hafa vitað af því að hægt væri að eiga þetta óeiginlega hljóð heldur hafi hann talið að allir ættu þetta hljóð/orð/hróp. Í öðru lagi hafi hann talið að Íslendingar hefðu stolið víkingaklappinu frá Skotlandi líkt og almennilegir víkingar.

Í þriðja lagi segir hann að það standi ekki HÚH! á bolnum heldur HÚ! sem að hans mati er íslenskari stafsetning en HÚH! þar sem orð enda almennt ekki á H-i hérlendis. „Þess vegna ákváðum við að reyna að kaupa réttinn á HÚ! og deila þeim rétti með þjóðinni. Því kommon, það er ekki hægt að eiga HÚ! frekar en það sé hægt að eiga fólk eða kveikjara,“ segir Hugleikur en einkaleyfastofa svaraði því til að þetta sé sama orðið. Því eigi hinn svokallaði Grinch bæði HÚH! og HÚ!.

„Og við megum ekki prenta þessa mynd á boli. Því bara hann má. Því að hann sagði pant ég,“ skrifar Hugleikur sem botnar ekkert í málinu. „Allavega. Dagsson.com er með fullt af á HÚ! bolum (eða „Maður að fagna“ eins og hann heitir núna) sem við þurfum að losna við áður en Grinch bankar á gluggann. Tilvalið fyrir HM!,“ segir Hugleikur sem hyggst gefa helming ágóðans af sölu bolanna til Krabbameinsfélagsins.