Tillögur Macron Frakklandsforseta sem settar voru fram í gær til að reyna að friða mótmæli gulu vestanna svokölluðu í landinu eru líklegar til að brjóta fjárlagareglur Evrópusambandsins.

Þar með hefur Macron fært stjórnvöldum á Ítalíu óvænt vopn í hendur, en þau hafa nú í rúman mánuð verið í baráttu við sambandið um að fá að setja fram fjárlög sem nema 2,4% umfram verga landsframleiðslu.

Tillögur Macron, sem fela í sér eftirgjöf á hækkunum eldsneytisskatta, auk hækkunar lágmarkslauna upp í 100 evrur á mánuði (það er 14 þúsund íslenskra króna) og afnámi skatta af lífeyrisgreiðslum, munu hins vegar þýða að hallinn verður 3,5% í Frakklandi.

Leiðtogar stjórnarflokkanna tveggja í Ítalíu, Fimm stjörnu hreyfingarinnar og Fylkingarinnar, sem báðir hafa verið orðaðiðr við popúlíska stefnu, hafa staðið gegn þrýstingi frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandinu um að halda sig innan 2,2% marka sambandsins í fjárlögum næsta árs.

Forsætisráðherra landsins, Guiseppe Conte, mun á morgun miðvikudag hitta forseta framkvæmdastjórnarinnar, Jean-Claude Juncker í Brussel til frekari viðræðna um fjárlögin. Framkvæmdastjórnin hefur heimild til að sekta Ítalíu ef landið heldur sig ekki innan markanna, en bæði Conte og fjármálaráðherra landsins, Giovanni Tria hafa reynt að fá sambandið til að gefa eftir í málinu.

Macron var vonarstjarnan í ESB

Samkvæmt frétt Bloombert eru Ítalir taldir líklegri til að nýta sér útgjaldaloforð Frakklands, sem ítölsk stjórnvöld segja að hafi oft verið undanskilið reglum sambandsins. Von gallharðra Evrópusinna hafi þvert á móti verið að Macron gæti leitt sambandið í átt til frekari samþættingar og fylgni við reglur sambandsins.

Leiðtogar flokkanna tveggja, sem báðir eru varaforsætisráðherrar í landinu, Matteo Salvini frá Fylkingunni, sem áður var kennd við norðurhluta Ítalíu en höfðaði til fleiri hluta landsins í síðustu kosningum, og Luigi Di Maio frá Fimm stjörnu bandalaginu, hafa lýst yfir stuðningi við kröfur mótmælenda gulu vestanna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa mótmælin verið sökuð um að valda hagrænum hörmungum, en Macron gaf að lokum eftir og hætti við hækkun eldsneytisverðsins sem var upphafleg krafa mótmælendanna, í kjölfar ofbeldisfullrar hegðunar mótmælenda og árása á lögreglumenn.

Stjórnvöld í ESB hafa jafnframt áhyggjur af því að ýta undir andstöðu við sambandið í aðdraganda Evrópuþingskosninga sem verða í flestum ríkjum sambandsins í maí næstkomandi. Gætu stjórnarflokkarnir í landinu sagt að sambandið mismunaði gegn Ítalíu í kosningunum.