Þórunn Reynisdóttir hefur átt afskaplega áhugaverðan feril og hefur lifað og hrærst í ferða- þjónustu frá unga aldri. „Ég starfaði hjá Flugleiðum í 25 ár, og byrjaði þar kornung sem sendill,“ segir Þórunn sem er í dag forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, stærstu ferðaskrifstofu landsins sem er óháð flugfélögum. Ferðaskrifstofa Íslands var stofnuð 1936 og samanstendur meðal annars af Úrval Útsýn, Sumarferðum, Plúsferðum ásamt FI Travel.

„Ég hef verið mjög lánsöm og hef fengið mörg tækifæri á starfsferlinum,“ segir Þórunn og rekur starfsferil sinn frá upphafi. „Ég byrjaði hjá frakthluta Icelandair og tók þátt í að flytja vörur úr landi, þaðan fékk ég tækifæri að vera stöðvarstjóri hjá félaginu í Kaupmannahöfn, 27 ára gömul. Á þeim tíma var þetta stærsta stöð fyrirtækisins. Sem var gríðarlega skemmtilegt tækifæri,“ segir Þórunn.

Einlitir bílaleigubílar

„Í kjölfarið kom ég heim og hóf að byggja upp bílaleiguna fyrir Icelandair. Mér fannst tækifæri í því fyrir íslenska ferða- þjónustu. Í kringum 1990 var einungis ein tegund af bílaleigubíl, og bara einn litur. Svo tók ég við sem hótelstjóri Hótel Loftleiða. Síðan ákváðum við að fjárfesta í íslenskri ferðaþjónustu ásamt erlendum fjárfestum sem höfðu unnið með mér í gegnum árin og keyptum Avis á Íslandi af fyrirtæki sem hét Avis í Noregi. Ég seldi það 2005 og tók við starfi í Bandaríkjunum sem forstjóri hjá tveimur félögum, Destination Europe og Fly International. Ég gegndi þeim stöðum og kynntist vel að vinna á stórum markaði. Svo kom ég heim og vann sjálfstætt áður en ég tók við starfinu hjá Ferðaskrifstofu Íslands fyrir tveimur árum. Ég hef fengið tækifæri til að takast á við ýmis ný verkefni,“ segir Þórunn í lok upptalningarinnar.

Nánar er rætt við Þórunni í Áhrifakonum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .