Finnsk-íslenska tölvuleikjafyrirtækið Mainframe Industries hefur lokið 20,3 milljóna evra fjármögnun, eða sem nemur tæplega 3 milljörðum króna króna. Um er að ræða stærstu fjármögnunarlotu fyrirtækisins til þessa en meðal fjárfesta er Riot Games, sem framleiddi leikinn League of Legends sem keppt var í Laugardalshöllinni nýlega.

Mainframe Industries er að þróa fjölnotendatölvuleik (MMO) sem verður hannaður fyrir svokallaða skýjaspilun. Hún gerir notendum kleift að spila leikinn í hvaða tæki sem er, hvort sem það er í gegnum snjallsíma, PC tölvur og leikjatölvur. Þegar Viðskiptablaðið fjallaði um Mainframe í sumar hafði tölvuleikjafyrirtækið fengið samtals 11 milljónir evra í fjármögnun frá stofnun árið 2019. Nú hefur félagið safnað um 31 milljón evra, eða um 4,6 milljarða króna í fjármögnun.

Sjá einnig: Tölvuleikur hannaður fyrir skýin

Meðal nýrra fjárfesta sem koma að Mainframe er Kevin Lin, meðstofnandi og fyrrum rekstrarstjóri (COO) hjá streymisveitunni Twitch, og Anton Gauffin, stofnandi og forstjóri Huuuge Games, ásamt fyrirtækinu Dreamhaven. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP tók einnig þátt í fjármögnuninni.

Vísisjóðurinn, Andreessen Horowitz eða a16z, leiddi fjármögnunarlotuna. Riot Games, framleiðandi hins vinsæla leiks League of Legends, tók einni þátt í fjármögnuninni. a16z og Riot Games tóku bæði þátt í hlutafjárútboði Mainframe í mars 2020 en Mainframe var fyrsta fjárfesting beggja aðila á Norðurlöndunum.

Íslenski fjárfestingarsjóðurinn Crowberry Capital og þrír finnskir vísisjóðir tóku einnig þátt í útboðinu en þeir höfðu tekið þátt í fyrri fjármögnunarlotum Mainframe.

Hluti af fjármögnuninni er þriggja milljóna evra lán frá Business Finland, sprotasjóði finnska ríkisins, sem hefur stutt við Mainframe með langtímalánum á síðustu árum.

Þór Gunnarsson, forstjóri og meðstofnandi Mainframe Industries:

„Við erum að búa til heim sem fók mun kalla heimili sitt í nokkur ár og vonandi áratugi. Með þessum sterka hópi af fjárfestum og nýjum vinum úr iðnaðinum, þá munum við tefla fram heimsklassa liði til að láta sýn okkar fyrir framtíð MMO leikja verða að raunveruleika og opna fyrir spilendur á hvaða skjái sem þeir vilja spila á.“