Héraðsdómur Vesturlands vísaði í upphafi viku frá máli þrotabús ICEGP ehf., áður Iceland Glacier Products ehf. (ICP), sem það höfðaði til endurgreiðslu á ofinnheimtum fasteignagjöldum.

ICP var stofnað um uppbyggingu og rekstur vatnsverksmiðju á Rifi í Snæfellsbæ. Samningar þess efnis voru gerðir í ágúst 2007 og gerðu áætlanir ráð fyrir því að átöppun myndi hefjast síðari hluta árs 2008. Þær áætlanir gengu ekki eftir og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2011.

Fasteign félagsins var tekin til nauðungarsölu árið 2012 en síðar samþykkt af sýslumanni að hún færi fram á almennum markaði og skiptastjóra falið að annast sölu hennar. Fasteignin var seld árið 2015 en áður en gengið var frá sölu hafði kaupandi greitt kaupverð þannig að þrotabúið gæti greitt áhvílandi lögveðskröfur vegna brunatrygginga og fasteignagjalda. Upphæð fasteignagjaldanna nam tæplega 53 milljónum króna.

Sjá einnig: Vatnsverksmiðja endaði í Íshellu

Kaupandi fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju 1 sendi beiðni til Þjóðskrár Íslands og óskaði eftir endurmati á eigninni. Niðurstaða Þjóðskrár var að frá árinu 2015 til loka árs 2016 bæri eignin aðeins lóðarmat og var álagning fasteignagjalda fyrir umrætt tímabil leiðrétt.

Í kjölfar þess fór þrotabúið fram á að matið yrði leiðrétt fyrir fyrri ár, það er þau ár er fasteignin var í eigu ICP. Var niðurstaðan sú sama, það er að eignin bar aðeins lóðamat árin 2011-14. Fór þrotabúið í kjölfarið fram á að Snæfellsbær endurgreiddi sér fasteignagjöld á tímabilinu með hliðsjón af hinu nýja mati. Því hafnaði sveitarfélagið hins vegar og taldi að endurmat eignarinnar hefði ekki sjálfkrafa í för með sér rétt til endurgreiðslu gjalda mörg ár aftur í tímann.

Snæfellsbær taldi að samkvæmt lögum um sveitarfélögbæri bæri að leysa úr ágreiningi um gjaldstofn og álagningu hjá Þjóðskrá eða eftir atvikum hjá yfirfasteignamatsnefnd. Krafa um endurmat fasteignar geti ekki komið í stað lögboðinna leiða sem kveðið er á um. Nauðsynlegt væri að fá stjórnvaldsúrlausn um gjaldstofn áður en mál væri höfðað fyrir dómstólum.

Héraðsdómur féllst á þessar röksemdir sveitarfélagsins og vísaði málinu frá dómi. Þrotabúinu var gert að greiða sveitarfélaginu 600 þúsund krónur í málskostnað vegna þessa.