Húsfélag á höfuðborgarsvæðinu var nýverið sýknað af kröfu Garðlistar ehf. um greiðslu tæplega 49 þúsund króna auk dráttarvaxta. Rekstur dómsmálsins kostar fyrirtækið 600 þúsund krónur í málskostnað, virðisaukaskattur ekki meðtalinn, en ágreiningur um hæfi dómara málsins rataði meðal annars til Landsréttar.

Málavextir eru þeir að árið 2015 gerðu Garðlist og húsfélagið samning um að starfsmenn fyrirtækisins mættu reglulega yfir sumarmánuðina og myndu slá grasblett sem er umhverfis hann. Samningurinn var ótímabundinn og uppsegjanlegur af hvorum aðila hvenær sem er. Bærist ekki ósk um annað myndi Garðlist síðan mæta aftur að ári og hefja slátt að nýju.

Gekk samstarfið á þann veg í fjögur ár. Vorið 2019 sendi fyrirsvarsmaður Garðlistar, það er að eigin sögn, tilkynningu um að starfsmenn myndu mæta á næstu dögum til að slá. Íbúar hússins könnuðust aftur á móti ekkert við að hafa fengið slíka tilkynningu senda. Garðlist byggði á því að starfsmenn hafi mætt í tvígang í maí 2019 og slegið og að reikningar vegna þeirrar vinnu, samtals að fjárhæð tæpar 49 þúsund krónur, hafi ekki fengist greiddir.

Dómari taldi stefnuna „þunna“

Málið var höfðað í nóvember í fyrra en fyrsta fyrirtaka eftir þingfestingu og greinargerðarfrest var í febrúar á þessu ári. Í það þinghald mætti ekki lögmaður Garðlistar heldur fékk hann „mætingarmann“ í sinn stað. Næsta þinghald varðaði kröfu um að dómari málsins myndi víkja sæti en lögmaður Garðlistar taldi að dómarinn hefði þá þegar tekið ákvörðun um niðurstöðu þess og væri því vanhæfur í málinu.

Sú krafa byggði á því að í fyrrgreindri fyrirtöku hefði dómarinn haft það á orði að stefna málsins væri „þunn“ og að „spurning [væri] með form hennar“. Dómarinn hafnaði með úrskurði að víkja sæti og sagði að ekki væri „óeðlilegt að dómari hafi uppi athugasemdir um formhlið málsins“ og að slíkt myndi ekki valda vanhæfi hans. Þá hafnaði hann því að hafa tekið afdráttarlausa afstöðu til sakarefnisins.

„Ekki verður hjá því litið að stefnukrafan er mjög lág og það fylgir því kostnaður fyrir alla, jafnt aðila sem dóminn, að reka mál fyrir dómstólum. Því er mjög eðlilegt að dómari reyni að leiða málið til lykta án þess að það safni á sig kostnaði. Er því með öllu hafnað að dómari hafi tekið efnislega afstöðu til málsins þannig að hafi leitt til vanhæfis,“ sagði í úrskurði héraðsdómarans. Sú niðurstaða var kærð til Landsréttar sem tók undir rök héraðsdómarans og hafnaði því að hann viki sæti.

Tókst ekki að sanna kröfuna

Málið var tekið til aðalmeðferðar í þessum mánuði og voru teknar sex skýrslur af því tilefni, ein aðilaskýrsla og fimm vitnaskýrslur. Tvær vitnaskýrslnanna voru af starfsmönnum Garðlistar og þrjár af íbúum hússins.

Garðlist byggði á því að reikningarnir hefðu ekki fengist greiddir og því væri nauðsynlegt að höfða málið. Byggst var á meginreglum samninga- og kröfuréttarins. Húsfélagið byggði á móti á því að engin þjónusta hafi verið veitt og að hafi hún verið veitt þá hafi hún verið gagnslaus með öllu. Þá hafi samningsvenja málsaðila, um tilkynningu um fyrirhugaðan slátt, ekki verið virt.

Meðal gagna málsins voru tölvupóstar sem Garðlist sendi á tiltekið netfang þar sem tekið var fram að umræddur grasblettur hafi verið sleginn. Að mati dómsins þóttu umræddir tölvupóstar ekki sanna að þjónustan hefði verið veitt og að netfang móttakanda var ekki á samningi málsaðila. Því þótti ekki sannað að þeim hefði verið veitt viðtaka.

Varðandi síðari sláttinn þá könnuðust íbúar við að fyrirtækið hefði mætt og slegið en að enginn munur hefði sést á grasinu fyrir og eftir slátt. Athugasemdir voru gerðar við verkið en Garðlist bauð ekki fram lagfæringar eða afslátt. Taldi dómurinn að með því hefði félagið fyrirgert rétti sínum samkvæmt reikningnum og að ekki hefði tekist sönnun um að það ætti kröfu um greiðslu fjárhæðarinnar.

„Það athugast að stefna málsins er verulega frábrotin. Skortir á lýsingu málavaxta og á hvaða málsástæðum sé byggt. Við aðalmeðferð málsins mótmælti [húsfélagið] öllum nýjum málsástæðum sem [Garðlist] hafði uppi við aðalmeðferð málsins. [Málsástæður og mótmæli skulu] koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki. Því eru málsástæður [Garðlistar, sem bornar voru fyrst upp] við aðalmeðferð málsins, of seint fram komnar,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Málskostnaður þótti hæfilega ákveðinn 600 þúsund krónur en þá hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Endanleg upphæð verður því nær 750 þúsund krónum þegar upp er staðið. Málskostnaður er því ríflega fimmtánfaldur höfuðstóll dómkröfu málsins.

Uppfært Garðlist hefur sótt um áfrýjunarleyfi til Landsréttar í málinu. Slík beiðni er nauðsynleg þar sem stefnufjárhæð nær ekki áfrýjunarþröskuldi.