Málverkið Salvator Mundi eftir Leonardo da Vinci seldist í gærkvöldi fyrri 450,3 milljónir dala á uppboði en það samsvarar rúmlega 46 milljörðum íslenskra króna. Verðið sem fékkst fyrir málverkið sló öll met og er það lang hæsta sem hefur fengist hingað til á uppboði fyrir listaverk að því er kemur fram á vef The New York Times.

Fyrir uppboðið í gær átti verkið Konur frá Alsír metið en það seldist á 179,4 milljónir dala, jafnvirði 18,6 milljarða íslenskra króna, í maí 2015.

Ekki var tilkynnt um nafn kaupandans en fyrir uppboðið hafði þegar borist tilboð frá þriðja aðila upp á 100 milljónir dala sem nemur um 10 milljörðum króna. Verkið er það tólfta til seljast á meira en 100 milljónir dala.