Hagnaður Marels á þriðja ársfjórðungi nam 33,4 milljónum evra, eða sem nemur rúmlega 4,6 milljörðum króna, samanborið við 26,7 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Tekjur námu 312,5 milljónum evra og jukust frá sama tímabili árið 2018 þegar þær námu 282 milljónum evra. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri þriðja ársfjórðungs.

EBIT nam 44,3 milljónum evra, samanborið við 40 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Þá námu pantanir 285 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 267,7 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 47,7 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, en á sama tímabili í fyrra nam það 31,6 milljónum evra.  Loks stóð Pantanabókin í 431,9 milljónum evra við lok þriðja ársfjórðungs.

Kaupa Curio og Cedar Creek Company

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir skömmu þá hefur Marel skrifað undir kaupsamning á 50% hlut í íslenska fiskvinnsluvélaframleiðandanum Curio en greint var frá kaupunum samhliða birtingu Marel á uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung. Samkvæmt tilkynningu verða kaupin gerð í tveimur áföngum. 40% hlutur verður afhentur þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt og 10% til viðbótar þann 1. janúar 2021. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50% hlut eftir fjögur ár.

Þá samþykkti Marel í dag kaup á Cedar Creek Company, áströlskum framleiðanda sem sérhæfir sig í hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu. Árstekjur félagsins eru um 3 milljónir evra. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum.

Tryggja áframhaldandi vöxt með nýsköpun og markaðssókn

„Rekstur Marel gekk vel á þriðja ársfjórðungi þar sem tekjur námu 313 milljónum evra.  Tekjur og EBIT aukast um 11% á milli ára og EBIT framlegð er stöðug í 14.2%. Tekjur af þjónustu og varahlutum fara vaxandi og námu 37% af heildartekjum. Sjóðsstreymi er gott og hagnaður á hlut eykst um 11% á milli ára.

Mótteknar pantanir voru 285 milljónir evra sem er nokkuð lægra en við vonuðumst eftir. Engu að síður aukast pantanir um 7% milli ára. Aðstæður á markaði eru krefjandi fyrir matvælaframleiðendur vegna umróts á alþjóðamörkuðum. Í slíkum aðstæðum geta pantanir auðveldlega sveiflast á milli ársfjórðunga. Sameiginlegt verkefni okkar og viðskiptavina okkar er að tryggja framboð til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir kjúklingi, kjöti og fiski á heimsvísu. Alþjóðlegt sölu- og þjónustunet ásamt framsæknu vöruframboði setur Marel í lykilstöðu.

Við tryggjum áframhaldandi vöxt með nýsköpun og markaðssókn, studda af yfirtökum og strategískum samstarfssamningum. Kaup á Cedar Creek Company munu styrkja stöðu Marel í hugbúnaðarlausnum í Eyjaálfu. Samstarf við TOMRA Food er ætlað að styrkja enn frekar okkar sterku stöðu í skynjaralausnum til að hámarka verðmæti afurða, lágmarka sóun í framleiðslu og auka matvælaöryggi.

Síðast en ekki síst, þá erum við mjög spennt að taka höndum saman með Curio sem færir okkur nær því að bjóða heildarlausnir fyrir fiskvinnslu um heim allan," er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels, í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins.