Hagnaður Marel heldur áfram að aukast milli fjórðunga. Fyrirtækið hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár og nam hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi 2016 17,3 milljónum evra. Árið 2015 var hagnaður þriðja ársfjórðungs 14,7 milljónir evra.

Tekjur aukast milli ára

Tekjur á þriðja ársfjórðungi 2016 námu 234,8 milljónum evra, en þær námu 189,1 milljón evra á sama tímabili í fyrra. Pro forma tekjur á þriðja fjórðungi 2015 námu 229,7 milljónum evra.

EBITDA á þriðja ársfjórðungi 2016 var 41,5 milljónir evra sem er 17,7% af tekjum. EBIT á þriðja ársfjórðungi 2016 var 33,4 milljónir evra, sem er 14,2% af tekjum. Pro forma leiðrétt EBITDA á þriðja ársfjórðungi 2015 nam 41,4 milljónum evra eða 18% af tekjum. Pro forma leiðrétt EBIT á þriðja ársfjórðungi 2015 nam 31,6 milljónum evra eða 13,8% af tekjum.

Skuldahlutfallið 2,6x

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 33,2 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi 2016, en það nam 29,7 milljónum á þriðja ársfjórðungi 2015. Skuldahlutfallið í lok þriðja ársfjórðungs 2016 er 2,6x.

Pantanabókin stóð í 305,1 milljón evra við lok þriðja ársfjórðungs 2016 samanborið við 306,5 milljónir evra í lok annars ársfjórðungs 2016. Við lok þriðja ársfjórðungs 2015 stóð pantanabókin í 187,7 milljónum evra. Pro forma pantanabók við lok þriðja ársfjórðungs 2015 var 303,6 milljónir evra.

Árni ánægður með niðurstöðurnar

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segist ánægður með niðurstöðurnar.

„Við erum ánægð með niðurstöðu þriðja ársfjórðungs 2016. Teymið er einbeitt og árangursdrifið sem skilar sér í sterkri rekstrarniðurstöðu og nálægt 15% rekstrarhagnaði fyrir fyrstu níu mánuði ársins. Við höldum áfram að kynna til leiks fjölmargar nýjar og skilvirkar lausnir fyrir viðskiptavini okkar og fjárfesta í innviðum fyrirtækisins  til að undirbúa framtíðarvöxt og virðisaukningu.“

Almenn bjartsýni

Á heildina litið telur félagið útlit fyrir að markaðsaðstæður fyrir stærri verkefni haldi áfram að taka við sér. Vegna almennra efnahagsaðstæðna er þó erfitt að segja til um tímasetningu á stærri verkefnum.

Samruni MPS og Marel gengur samkvæmt tilkynningunni vel og samkvæmt áætlun, en félagið hefur sameinað og þjálfað söluteymi í kjötiðnaði til þess að mæta þörfum viðskiptavina.

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða um allan heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni arðsemi. Framtíðarhorfur eru góðar og gert er ráð fyrir því að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum. Markmið Marel er að halda áfram að vaxa hraðar en markaðurinn.

Marel telur langtímahorfur vera góðar, en til skemmri tíma litið hefur óvissa í heimsbúskapnum aukist. Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetninga stærri verkefna.