Marel hefur tilkynnt um kaup á þýska félaginu TREIF Maschinenbau GmbH sem sérhæfir sig í skurðtæknilausnum í matvælaiðnaði. Kaupverðið er 128 milljónir evra, andvirði 21,2 milljarðar króna, auk 2,9 milljónum hluta í Marel, sem Uwe Reifenhäuser, fráfarandi eigandi og forstjóri TREIF, hefur skuldbundið sig til að eiga í 18 mánuði frá kaupunum hið minnsta. Kaupin eruð háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda, og áætlað er að gengið verði frá kaupunum síðar á árinu.

Miðað við núverandi markaðsvirði eru þeir hlutir virði tvo milljarða króna og heildarkaupverð því um 23,2 milljarðar króna. Kaupverðið byggist á heildarvirði (e. enterprise value).

TREIF var stofnað árið 1948, er með yfir 80 milljónir evra í árstekjur, andvirði 13,2 milljörðum króna og um 13 milljónir evra í EBITA, andvirði ríflega 2,1 milljarði króna. Það var stofnað árið 1948 með áherslu á skurðarlausnir fyrir kjötiðnaðinn. Starfsmenn félagsins eru um 500 á starfsstöðum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.

Kaupin eru fjármögnuð með núverandi lánalínum og eigin hlutum sem Marel aflaði í þeim tilgangi að nýta til fyrirtækjakaupa.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna um kaup Marel á TREIF, sem er sannkallaður leiðtogi á sínu sviði í okkar iðnaði. Með þessum kaupum koma saman fyrirtæki sem hvort um sig eru leiðtogar á sviði nýsköpunar og vöruþróunar og deila framtíðarsýn um umbyltingu í vinnslu matvæla.

Við höfum fylgst með TREIF árum saman og hrifist af framúrskarandi tækni félagsins, hæfileikaríku teymi og öflugum hópi viðskiptavina, sem telur allt frá minni verslunum til leiðandi alþjóðlegra matvælafyrirtækja. Saman erum við betur í stakk búin til að mæta þörfum viðskiptavina okkar þegar kemur að sjálfvirknivæðingu, sveigjanleika og afhendingartíma á vörum fyrir neytendamarkað. Tæknilausnir TREIF styðja vel við vöruframboð Marel.

Stærstu tekjusvið TREIF í dag eru í kjötiðnaði og bökuðum vörum, en með því að nýta þá tækni og þekkingu má hraða vöruþróun og styðja við frekari vöxt í kjúklinga- og fiskiðnaði Marel. TREIF á víðtækan og dyggan viðskiptavinahóp og með því að nýta stafrænar lausnir Marel og alþjóðlegt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum getum við stutt við frekari vöxt og aukið þjónustutekjur.“