María Jóna Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Hún tekur við starfinu af Özuri Lárussyni sem lætur senn af störfum.

María hefur starfað í bílgreininni í tæpa tvo áratugi, nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptatengsla og síðar framkvæmdastjóri sölusviðs Heklu. Áður var María yfirmaður viðskiptatengsla hjá Toyota ásamt því sem hún var sérfræðingur og verkefnastjóri við innleiðingu straumlínustjórnunar hjá Arion banka. María útskrifaðist með MS.c. í fjármálum og stefnumótun frá Copenhagen Business School árið 2012 og áður með BS.c í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. María hefur þegar hafið störf hjá Bílgreinasambandinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

„Við erum ánægð að hafa fundið og fengið kraftmikinn liðsmann til liðs við okkur sem hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum innan bílgreinarinnar og er tilbúinn að vinna að góðum málefnum okkur til framfara. Það bíða mörg brýn verkefni úrlausnar sem mikilvægt er að einbeita sér að núna. Þar á meðal er samstarf með stjórnvöldum vegna breytingar á mæliaðferðum Evrópusambandsins sem leiði ekki sjálfkrafa til verðhækkana á nýjum bílum. Einnig eru menntamál okkur ofarlega í huga sem og gæðamál. Bílgreinin er afar stór og mikilvægur þáttur í efnahagslífi og samgöngum þjóðarinnar“ segir Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins í tilkynningunni.

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins horfir björtum augum fram á veginn í nýju og spennandi starfi hjá Bílgreinasambandinu. „Ég er mjög spennt að takast á við þetta krefjandi starf sem mér hefur verið treyst fyrir. Það eru mörg stór verkefni sem liggja fyrir  í grein sem er að takast á við gífurlegar tæknibreytingar og ég hlakka til að starfa með öllum félagsmönnum að auknum framförum í bílgreininni.“