Gengi bréfa Marel rauk upp um 9,97% í 314 milljón króna viðskiptum í byrjun morguns, en síðan hefur hækkunin nokkuð dregist til baka og þegar þetta er skrifað nemur hækkunin 7,77% í 724 milljóna viðskiptum.

Nemur hækkun markaðsvirðis félagsins miðað við þessa hækkun 18 milljörðum króna, en hvert félagsins fæst nú á 367,50 krónur, en í lok viðskipta í gær var gengið 341 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun skilaði félagið tæplega 12 milljarða króna hagnaði á síðasta ári, þar af 4,2 milljörðum á síðasta ársfjórðungi.

Var það um 52% hagnaðaraukning á milli ára miðað við 4. ársfjórðung, en ef horft er á árið 2017 í heild jókst hagnaðurinn milli ára um 29,4%. Jafnframt skoðar fyrirtækið að fara á markað erlendis eins og Viðskiptablaðið segir frá . Gengi allra bréfa sem viðskipti hafa verið með í kauphöllinni hækkuðu í virði til að byrja með í morgun og hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 3,56%.

Önnur félög sem hafa hækkað nokkuð í morgun eru:

  • Sjóvá, með 2,89% hækkun upp í 17,80 krónur í 71 milljón króna viðskiptum.
  • Hagar með 2,26% hækkun upp í 40,80 krónur í 165 milljón króna viðskiptum.