Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir nauðsynlegt að úr því verði skorið hið fyrsta hver leiðir lista flokksins í borginni, en flokkurinn tekur ákvörðun um það á þriðjudag hvernig valið verði á listann.

Viðskiptablaðið hefur öruggar heimildir fyrir því að Marta íhugi nú alvarlega að gefa kost á sér í oddavitasætið. Aðspurð segir Marta að það sé rétt að hún sé að íhuga málið og segist vilja skipa sæti í forystusveit flokksins í Reykjavík enda sé hún í stjórnmálum til að hafa áhrif. Marta bendir á að litlu fleiri hafi tekið þátt í síðasta prófkjöri flokksins í Reykjavík heldur en eru í fulltrúaráði flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn fyrirhugar leiðtogaval 21. október næstkomandi fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor, en á fundi Varðar, fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík á þriðjudag verður tekin endanleg ákvörðun um tillögu stjórnar Varðar um að farin verði blönduð leið. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um felur hún í sér leiðtogaprófkjör meðal allra flokksmanna en uppstillingu í önnur sæti, í stað hefðbundins prófkjörs þar sem kosið er um efstu 10 sæti listans eins og verið hefur mörg undanfarin ár.

Marta segist óhrædd við að sækjast eftir að skipa sæti í forystusveit flokksins í borginni hvort sem farið yrði í hefðbundið prófkjör eða leiðtogaprófkjör og uppstillingu í neðri sæti.

„Sem fyrrverandi formaður Varðar geri ég mér grein fyrir því að þessi ákvörðun er í höndum fulltrúaráðsins. Þessi um það bil 2000 manna hópur er kjarninn í flokksstarfinu í Reykjavík og er lítið minni en sá hópur sem tók þátt í prófkjörinu síðast fyrir alþingiskosningarnar sem taldi þá 3400 manns,“ segir Marta en það er ein versta þátttaka í prófkjöri flokksins frá upphafi.

„Það gæti því verið komin tími til að fara nýjar leiðir til að vekja áhuga kjósenda á starfi Sjálfstæðisflokksins.”