Boeing 737 MAX vélarnar sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars munu ekki taka á loft á þessu ári. Þetta staðfesti Steve Dickson, framkvæmdastjóri bandaríska flugmálaeftirlitsins fyrr í dag.

Dickson sagði í viðtali við CNBC fyrr í dag að það væru þó nokkrir áfangar sem átti eftir að ná áður en vélarnar gætu tekið á loft á nýjan leik en Dickson fundaði í dag með samgöngu- og innviðanefnd Bandaríkjaþings.

Fyrr í vikunni greindi Reuters frá því að bandarísk flugmálayfirvöld byggjust ekki við því að gefa MAX vélunum grænt ljóst fyrr en í janúar á næsta ári í fyrsta lagi. Þá telja sumir embættismenn vestanhafs það muni ekki gerast fyrr en í febrúar í fyrsta lagi. Þess má geta að áætlanir Icelandair gera ráð fyrir vélunum í fyrsta lagi í mars en fyrr í dag greindi Morgunblaðið frá því að stjórnendur félagsins vinni að áætlunum sem geri ráð fyrir að vélarnar komist ekki í notkun fyrir sumarið.

Fyrir liggur að MAX vélarnar munu ekki taka á loft fyrr en bandaríska flugmálaeftirlitið hefur gefið samþykki. Eftir það mun það taka flugfélög að minnsta kosti 30 daga við að koma þeim inn í leiðakerfi sín á nýjan leik. Þá má geta þess að í tilfelli Icelandair munu evrópsk flugmálayfirvöld einnig þurfa að veita samþykki sitt en ekki liggur nákvæmlega fyrir hve langan tíma það muni taka.