Nicolas Maduro forseti Venesúela hefur skipað teymið sem mun leiða samningaviðræður ríkisins um endurskipulagningu á skuldum þeirra en ríkið er afar skuldsett. Í teyminu eru fyrrum herforingi, landafræðiprófessor, tveir verkfræðingar, ráðherra sem ekki má stunda viðskipti í Bandaríkjunum sökum meintrar spillingar og síðast en ekki síst meintur eiturlyfjabarón. Þetta kemur fram á vef The Wall Street Journal .

Samsetning samninganefndarinnar þykir gefa til kynna að ríkisstjórn Venesúela ætli sér ekki raunverulega að endurskipuleggja skuldir sínar og koma þeim í skikkanlegt horf.  Heldur sé ætlunin að skapa aðstæður sem hægt er að kenna refsiaðgerðum Bandaríkjanna um en enginn nefndarmanna hefur hefur haldbæra menntun eða reynslu af hagfræði eða fjármálum. Náist samningar ekki verður niðurstaðan líklega ríkisgjaldþrot Venesúela.