Frá árinu 2000 hefur meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins farið hækkandi, úr 42,2 árum upp í 46,8 ár samkvæmt tölum Hagstofunnar . Meðalaldur kvenkyns kennara hefur hækkað meira á þessu tímabili heldur en karlkyns samstarfsmanna þeirra, eða úr 41,8 ár upp í 46,9 ár, meðan sama tala hjá karlkennurum fór úr 43,6 árum í 46,3 ár.

Ef horft er aðeins lengra aftur í tímann, eða frá árinu 1998 hefur kennurum undir þrítugu fækkað meðan kennurum sem eru 50 ára og eldri fjölgar, frá 23,7% í 41,3%. Á sama tíma fjölgaði kennurum sem eru 60 ára og eldri úr 5,7% í 14,2%. Meðalaldur starfsfólks við kennslu sem ekki hefur kennsluréttindi er þó töluvert lægri en þeirra sem eru með full réttindi. Var meðalaldur þeirra með kennsluréttindi 47,3 ár haustið 2016 meðan kennarar án réttinda voru að meðaltali 38,8 ára gamlir.

Kennurum án kennsluréttinda hefur tekið að fjölga á ný eftir mikla fækkun í kjölfar hrunsins. Var hlutfall þeirra á árabilinu 1998 til 2008 á bilinu 13 til 20%, en fór lægst eftir hrun í 4,1% haustið 2012. Síðan þá hefur þeim fjölgað ár frá ári á ný og voru þeir 5,6% haustið 2016. Í heildina voru þá 272 starfsmenn við grunnskóla landsins án kennsluréttinda við kennslu, sem er fjölgun um 11 manns frá árinu áður.