Ekki hefur fengist botn í afdrif kröfu starfsfólks Fréttablaðsins vegna greiðslna sem útgefandi blaðsins, Torg ehf., fékk frá Sýn hf. fyrir birtingu á fréttum blaðsins inn á Vísi.is. Starfsfólk vinnur nú með lögmanni og Blaðamannafélagi Íslands að undirbúningi málssóknar ef ekkert breytist á næstunni.

Síðla árs 2017 gengu í gegn kaup Sýn á ljósvakamiðlum 365 miðla og fylgdi Vísir.is með í kaupunum. Fréttablaðið var fært inn í Torg en samkomulag var gert um það að fréttir úr blaðinu myndu halda áfram að birtast á Vísi þar til desember 2019 gengi í garð. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fyrir þetta hafi verið greiddar tæplega fimm milljónir króna á mánuði. Samkvæmt kjarasamningum blaðamanna skal skipta sölu á höfundarréttarvörðu efni – blaðamenn og ljósmyndarar eiga höfundarrétt á því efni sem birtist í blaðinu – til helminga á milli samningsaðila.

„Við höfum skorað á forsvarsmenn Torgs að leggja fram umrætt samkomulag en það hefur enn ekki gerst. Það hefur lítil hreyfing verið á málinu og ef það breytist ekki er einsýnt að stefna verði málinu fyrir dóm,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Í lok síðustu viku var tilkynnt að Helgi Magnússon hefði eignast þá hluti sem eftir stóðu í Torgi. Fyrr í sumar var tilkynnt um að Helgi hefði keypt helmingshlut í Torgi en nú á hann meirihluta í félaginu. Samtímis var tilkynnt að núverandi eigendur fjölmiðilsins Hringbrautar, Sigurður Arngrímsson og Guðmundur Örn Jóhannsson, myndu leggja fyrirtækið inn í Torg gegn því að fá hluti í síðarnefnda félaginu. Þá mun nýr ritstjóri blaðsins, Jón Þórisson, einnig eiga hluta í Torgi. Milli tilkynninga um kaup Helga á hlutum í Torgi sagði Mannlíf frá því að starfsfólk Fréttablaðsins teldi sig eiga kröfu á félagið.

„Þetta mál er til umfjöllunar hjá annars vegar Blaðamannafélaginu og fólksins sem hlut á í málinu og hins vegar fulltrúa okkar. Það hefur verið fundað vegna þess að undanförnu. Ég á ekki von á öðru en að það leysist farsællega,“ segir Helgi Magnússon. Aðspurður um það hvort fyrirvarar hefðu verið gerðir við kaupin vegna málsins eða hvort samkomulag hefði verið milli kaupanda og seljanda vegna þess sagði Helgi að hann gæti ekki tjáð sig frekar um það. Áður hafði Vísir eftir Helga, í grein sem birtist í upphafi október, að málið hefði ekki verið rætt í stjórn og hann kannaðist ekki við það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Stefanía Ólafsdóttir framkvæmdastjóri og einn stofnanda Avo er í ítarlegu viðtali.
  • Ráðherrar atvinnuveganna ríða á vaðið með aðgerðaráætlun um einföldun regluverks.
  • Tugmilljarða inneign Íbúðalánasjóðs verður að finna annan stað en hjá Seðlabankanum.
  • Minnkandi útlánastarfsemi banka og lægri stýrivextir snúa við þróun fjármögnunar fyrirtækja og er búist við að fleiri leiti í skuldabréfaútgáfu.
  • Til að hindra stafrænan dauða íslenska tungumálsins hefur nýjum vef verið komið á laggirnar svo hægt sé að tala við tölvur á hinu ástkæra ylhýra.
  • Farið er ofan í saumana á uppgjöri Boeing sem þrátt fyrir allt sem undan er gengið er enn með bjartsýnar spár.
  • Svipmyndum er brugðið upp af ársfundi atvinnulífsins þar sem 20 ára afmæli SA var fagnað.
  • Haldið er áfram að fjalla um þær hugmyndir sem komist hafa í úrslit Gulleggisins frá síðasta blaði.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um svik Jóhönnu Sigurðar við stjórnarskrána
  • Óðinn skrifar um sölu ríkiseigna og lokaða reikninga