Meirihluti landsmanna segist andvígur því að leyfa birtingar áfengis- og tóbaksauglýsinga samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var í janúar. Rúmlega 60% svarenda sögðust andvíg því að áfengisauglýsingar væru heimilaðar en þar af sögðust tæp 42% vera mjög andvíg því. Stuðningur við heimilun áfengisauglýsinga var 18%.

Afgerandi afstaða var gegn heimilun á birtingu tóbaksauglýsinga og lýstu 85% svarenda sig á móti heimilun slíkrar birtingar en alls 72% svarenda sem sögðust mjög andvígir henni. Stuðningur við heimilun slíkra auglýsinga var öllu minni en stuðningur við heimilun áfengisauglýsinga, eða um 5,5%.

Stuðningur við heimilun áfengisauglýsinga reyndist meiri með lækkandi aldri. Af yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, sögðust 26% vera fylgjandi heimilun auglýsinganna samanborið við 10% í elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri.

Andstaða reyndist nokkuð minni hjá körlum heldur en konum og lýstu karlar frekar stuðningi við heimilun auglýsinganna heldur en konur. Lítill munur reyndist á afstöðu eftir búsetu svarenda og tekjum svarenda en andstaða jókst samfara auknu menntunarstigi þeirra.

Afstaða svarenda virðist tvískipt sé horft til stjórnmálaskoðana. Stuðningsfólk Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata sýndu umtalsverða andstöðu gegn heimilun áfengisauglýsinga. Hins vegar var sú andstaða minni hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.