Meirihluti Íslendinga, eða 76%, er andvígur því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúbyggingar. Þetta kemur fram í nýrri skoðunarkönnun MMR .

Þar af sögðust 48,3% vera mjög andvíg. Einungis 8% voru fylgjandi þeirri tilhögun. Hlutfall þeirra sem voru andvíg hækkaði milli ára en hlutfall fylgjandi stóð í stað. Spurt var: „Almennt séð, hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar hjá sveitafélögunum?“ Samtals tóku 94,4% afstöðu til spurningarinnar. Svarfjöldi var 985 einstaklingar. Könnunin var framkvæmd 20. til 26. september.

Lýðfræðilegir þættir spila inn í

Þeir sem voru í yngsta aldurshópnum (18-29) voru líklegri en aðrir að vera andvígir en um 82,3% af einstaklingum í þeim hópi voru það. Hins vegar voru einstaklingar 68 ára og eldri líklegastir til að vera fylgjandi eða um 15,5%.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna voru líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að vera fylgjandi úthlutun ókeypis lóða en 16,6% Samfylkingafólk sögðust fylgjandi og 17,1% Vinstri grænna. Þeir sem studdu ríkisstjórnina voru einnig líklegastir til að vera andvígir eða um 80,6%, af þeim sem studdu ekki ríkisstjórnina voru 73,7% andvígir að úthlutað væri ókeypis lóðum.