Flugfargjöld til og frá Íslandi hafa verið óvenju lág undanfarið og samkvæmt athugun Túrista í byrjun þessa mánaðar var hægt að fljúga til meira en 30 evrópskra borga fyrir innan við 15 þúsund krónur með nokkuð stuttum fyrirvara.

Í frétt Túrista um málið segir að þetta mikla framboð á ódýrum flugfargjöldum um hásumar skrifist ekki eingöngu á þá staðreynd að aukinn samkeppni sé í flugferðum til og frá landinu. Ástæðan sé einnig sú að stór hluti flugfélaganna sem fljúga hingað til lands rukka farþega aukalega fyrir innritaðan farangur, val á sætum og veitingar um borð. Þess má geta að sum flugfélög eins og Wow air rukka einnig fyrir handfarangur ef hann er yfir ákveðinni stærð. Samtals 16 af þeim 24 flugfélögum sem fljúga til landsins rukka aukalega fyrir innritaðan farangur.

Sérstaka töskugjaldið getur verið allt að 6.000 krónur í Evrópuflugi og er það einungis fyrir aðra leiðina.  Hæsta farangursgjaldið sem farþegar borgar er hjá Wizz Air. Farangursgjald flugfélagsins er er ekki föst tala en er oftast í kring um 50 evrur eða um 6.000 krónur. Er það rúmlega þrefalt meira en farþegar Eurowings eða Iberia Express borga undir töskur sínar í flugi til eða frá Íslandi.

Í fréttinni kemur einnig fram að það séu ekki einungis farþegar hinna hefðbundnu lágfargjaldaflugfélaga sem borga aukalega fyrir allt annað en flugmiðann þegar ódýrasta fargjaldið er bókað. Farþegar British Airways, Finnair, Lufthansa og SAS þurfa einnig að borga fyrir töskur á ferðum sínum til og frá landinu. Þá hafa forsvarsmenn Icelandair einnig gefið það út að félagið hyggst síðar á þessu ári taka upp fargjöld án farangursheimildar. Þar með mun flugfélagið feta í fótspor samkeppnisaðila sinna sem bjóða ódýrari flugmiða fyrir þá sem kjósa að ferðast einungis með handfarangur.