Nú þegar árinu 2021 er senn að ljúka er tilvalið að líta yfir þær erlendu fréttir sem vöktu mesta athygli lesenda á liðnu ári. Hér eru þær fréttir sem voru í sætum 1 til 5 yfir mest lesnu erlendu fréttir ársins.

1. Með svimandi háar tekjur

Denise Coates, stofnandi og forstjóri veðmálafyrirtækisins Bet365, var með tekjur upp á 469 milljón punda eða um 100 milljarða króna á árinu 2020. Hún var með sjöfalt hærri laun en launahæsti forstjóri fyrirtækis í FTSE 100, en laun Coates hækkuðu um 50% milli áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir 8% tekjusamdrátt í rekstri Bet365.

2. Harry og Meghan þéna vel

Í mars var sagt frá samningum Harry Bretaprins og Meghan Markle við Netflix, Spotify og Apple um þátta- og hlaðvarpsgerð. Stærsti samningurinn var fimm ára samningur við Netflix um þáttagerð, metinn á um 100 milljónir dollara eða um 13 milljarða króna. Jafnframt er samningur þeirra hjóna við Spotify um hlaðvarpsgerð metinn á um 15-18 milljónir dollara, um 2 milljarða króna.

3. Jack Ma stofnandi Alibaba horfinn

Í byrjun árs var sagt frá því að Jack Ma, stofnandi netverslunarinnar Alibaba og greiðslumiðlunarinnar Alipay, hafði ekki sést opinberlega í tvo mánuði þar á meðal ekki í eigin raunveruleikaþætti. Ma hafði gagnrýnt kínversk stjórnvöld opinberlega og hvatt til frjálsara markaðshagkerfis.

4. Deutsche snýr baki við Trump

Í byrjun árs var sagt frá því þegar Deutsche Bank, helsti lánveitandi fyrrverandi Bandaríkjaforseta Donald Trump, hætti öllum viðskiptum við hann í kjölfar árásarinnar á Bandaríkjaþing. Trump skuldaði bankanum 340 milljónir dala, eða um 44 milljarða íslenskra króna.

5. Stórtjón af lítt þekktum vogunarsjóði

Archegos, lítið þekktur vogunarsjóður, olli alþjóðlegum bönkum stórtjóni fyrr á árinu og leiddi af sér verðfall á bréfum nokkurra félaga í 30 milljarða brunaútsölu hlutabréfa. Sjóðurinn gerði afleiðusamninga fyrir meira en 50 milljarða dollara en eignir sjóðsins námu um 10 milljörðum dollara og var sjóðurinn því mjög skuldsettur.

Hér má sjá næstu 5 sæti listans, frá 6 til 10 .