Nú þegar árinu 2021 er senn að ljúka er tilvalið að líta yfir þær erlendu fréttir sem vöktu mesta athygli lesenda Viðskiptablaðsins á liðnu ári. Hér eru þær fréttir sem voru í sætum 6 til 10 yfir mest lesnu erlendu fréttir ársins.

6. Yfir 900 sagt upp fyrir Novator sam­runa

Vishal Garg, forstjóri húsnæðislánafyrirtækisins Better sem mun sameinast sérhæfðu yfirtökufélagi Björgólfs Thors, sagði upp meira en 900 manns, eða um 9% af starfsfólki sínu, á Zoom fundi í byrjun desembermánaðar. Uppátæki Garg var harðlega gagnrýnt og baðst hann afsökunar í kjölfarið.

7. Björgólfur Thor í blómabransann

Í byrjun árs var sagt frá því að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, væri meðal fjárfesta í Bloom & Wild, vefverslun sem býður upp á heimsendingu á blómum og öðrum gjafavörum. Verslunin tryggði sér 102 milljóna dala fjármögnun sem mun nýtast í frekari sókn inn á evrópskan markað.

8. Rafbíll með 1.000 km drægni

Í byrjun árs kynnti kínverski bílaframleiðandinn NIO til leiks nýja lúxusrafbílinn NIO ET7, en bíllinn er væntanlegur á markað á fyrri hluta næsta árs. Bílaframleiðandinn er í harðri samkeppni við Tesla í Kína, en félagið var á barmi gjaldþrots áður en kínversk stjórnvöld komu félaginu til bjargar.

9. Bað starfsfólk að hætta að væla

Bill Michael, fyrrverandi stjórnarformaður KPMG á Bretlandi, sagði starfi sínu lausu í febrúarmánuði eftir að hafa beðið starfsfólk um að „hætta að væla" yfir COVID-19 og áhrifum samkomutakmarkana á líf starfsmanna. Michael fékk sjálfur COVID-19 í mars á síðasta ári og var lagður inn á spítala vegna þess.

10. Flugrisarnir óttast 5G-væðingu

Í lok árs lýstu stóru bandarísku flugfélögin American Airlines, Southwest Airlines og United Airlines yfir áhyggjum af því að fyrirhuguð innleiðing á 5G myndi leiða til tafa og truflana á flugum. Hagsmunasamtök bandarískra fjarskiptafyrirtækja (CITA) lýstu umræðunni sem hræðsluáróðri.