Borgarmálin, staða heilbrigðiskerfisins og umræðan í aðdraganda kosninganna voru meðal umfjöllunarefna leiðara Viðskiptablaðsins sem vöktu mesta athygli lesenda á árinu.

1. Rúin trausti og með veikt umboð

Fjallað var um stöðu meirihlutans í Reykjavíkurborg þegar ár var eftir af kjörtímabilinu og slæma niðurstöðu hans í könnun Gallup um traust þjóðarinnar til hinna ýmsu stofnana. „Allt hefur þetta orðið til þess að af öllum stofnunum sem Gallup mælir ber almenningur minnst traust til borgarstjórnar Reykjavíkur. Það er afrek útaf fyrir sig, sérstaklega þegar haft er í huga að stofnanir, sem gengið hafa í gegnum mikinn hreinsunareld á síðustu árum, mælast með meira traust og dugir þar að nefna bankakerfið og þjóðkirkjuna.“

2. Bólusetningar virka

Fulltrúar á upplýsingafundum, stjórnmálamenn og fjölmiðlar voru gagnrýndir fyrir að draga upp dekkri mynd en tilefni var til af stöðu faraldursins í lok júlí þegar búið var að bólusetja mestalla þjóðina.

3. „Önnur störf" að sliga spítalana

Fjallað var um skýrslur McKinsey um íslenskt heilbrigðiskerfi og svokallað DRG-fjármögnunarkerfi sem til stendur að taka upp og byggir á þjónustutengdri fjármögnun. „Bent er á vankanta íslenska kerfisins sem og lausnir. Það jákvæða er að á árunum 2022 og 2023 verða sjúkrastofnanir fjármagnaðar samkvæmt DRG-kerfinu. Þótt fyrr hefði verið. Þessu til viðbótar telur Viðskiptablaðið að gera eigi skurk í að útvista þjónustu til einkaaðila. Fyrst Svíar gera það hljóta jafnvel hörðustu andstæðingar einkavæðingar að sjá að við eigum einnig að gera það.“

4. Trumpismi og sósíalista-elítan

„Það er ekki „lágkúra" að spyrja frambjóðanda út í kauprétti eða rifja upp kapítalíska fortíð sósíalistaforingja," sagði í leiðara Viðskiptablaðsins í aðdraganda kosninganna þegar titringur meðal frambjóðenda var sem mestur og reynt var kenna fjölmiðlum um lækkandi fylgi í könnunum. „Þetta er taktík, sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna notaði ítrekað.“

5. Að loka augunum

Ákvörðun stjórnvalda um að skylda einstaklinga sem komu til landsins frá áhættusvæðum að dvelja í farsóttarhúsi enda komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin stæðist ekki lög. „Við verðum líka að gera kröfu um að lagastoð sé fyrir hvers konar frelsissviptingu jafnvel þó heimsfaraldur geisi. Spurning um það hversu langt við ætlum að ganga á alltaf eiga rétt á sér. Við megum ekki loka augunum og láta líf okkar stjórnast af ótta.“

Sjá einnig: Mest lesnu leiðarar ársins 6-10