Líkt og við var að búast setti heimsfaraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans mark sitt á efnistök leiðara Viðskiptablaðsins árið 2020. Önnur málefni bar þó þar á góma. Hér að neðan má sjá þá leiðara sem voru í sætum 6-10 yfir mest lesnu leiðara ársins.

6. Hótanir Rio TInto

Í byrjun árs sendi Rio Tinto frá sér tilkynningu að til skoðunar væri að loka álverinu í Straumsvík. Ástæðan var sögð of hátt raforkuverð en sambærilegt skeyti hafði verið sent stjórnvöldum í Nýja-Sjálandi skömmu áður. „Það er sjálfsagt hjá forsvarsmönnum Landsvirkjunar að ræða við Rio Tinto. Forsendur fyrir þeim viðræðum þurfa hins vegar að vera þannig að ekki verði hætta á að forsvarsmenn annarra stóriðjufyrirtækja banki upp á með sama erindi. Landsvirkjun á ekki að vera rekin með tapi og ekki á núlli. Orkuauðlindir þjóðarinnar eiga að skila henni arði.“

7. Fjöldagjaldþrot blasa við

Það hefur verið hart í ári fyrir ferðaþjónustuna undanfarna mánuði og viðbúið að svo verði eitthvað áfram. Ljóst er að mörg fyrirtæki munu ekki lifa veturinn af. „ Ef flugumferð verður ekki komin í fyrra horf fyrr en árið 2024 vakna óhjákvæmilega upp spurningar um framtíð ferðaþjónustufyrirtækja landsins. Raungerist þessi áætlun þá erum við að mörgu leyti komin í sömu spor og í efnahagshruninu fyrir rúmum áratug þegar sértækar og handahófskenndar aðgerðir réðu því hvaða fyrirtækjum var bjargað. Það er nefnilega alveg ljóst að það verður ekki hægt að bjarga öllum,“ sagði í leiðara í ágústlok.

8. Falskur tónn

Undir lok september var vafi uppi um það hvort kjarasamningar á almennum markaði héldu eður ei. Á endanum stigu stjórnvöld inn í og komu í veg fyrir að þeim yrði sagt upp og að kjaravetur rynni upp. „Það er ágætt að minna háværustu verkalýðsforkólfana og raunar suma úr stjórnarandstöðunni á að atvinnurekendur reka fyrirtæki og hjá fyrirtækjum vinnur fólk. Er mögulegt að aðgerðir ríkisstjórnirnar verði til þess að fyrirtæki í einkageiranum komist hjá því að segja upp starfsfólki?“ voru lokaorð leiðarans af því tilefni.

9. Veiran og verðtryggingin

Í vor var rifin upp úr hugmyndapokanum sú hugmynd að réttast væri að þak yrði sett á hækkun verðtryggðra lána en í leiðara var bent á hvað það gæti haft í för með sér. „Slíkt þak hefði óhjákvæmilega kostnað í för með sér. Lánveitendur munu þurfa að verðleggja áhættuna af slíku verðbólguþaki. Það mun að líkindum þýða að verðtryggðir vextir hækki til framtíðar.“

10. Almenningur mun á endanum borga

Þegar efnahagshremmingarnar skullu á var bent á það í leiðara undir lok apríl að viðbúið væri að endanlegur kostnaður vegna þeirra myndi lenda á almenningi á endanum. „Líklegt er að stjórnmálamenn muni reyna að nýta sér gremjuna og boða lausn sem felst í að ausa meira fé úr ríkissjóði. Kosningabaráttan mun þá snúast upp í keppni um að ná hæstu fjárhæðum upp úr vösum skattgreiðenda. Sennilega munu málsvarar skattgreiðenda mega sín lítils í loforðaflaumnum,“ sagði þar meðal annars.