Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,0% milli mánaða í janúar. Um er að ræða mestu hækkun vísitölu íbúðaverðs milli mánaða síðan í maí í fyrra, en þá hækkaði íbúðaverð um 1,8% milli mánaða.

Síðan þá hefur vísitala íbúðaverðs sveiflast nokkuð  og mælist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs nú 12,8%. Vísitala íbúðaverðs hefur nú hækkað tvo mánuði í röð eftir að hafa lækkað milli mánaða í nóvember.

Undanfarin þrjú ár hefur vísitala íbúðaverðs að meðaltali hækkað um 0,99% milli mánaða og er mánaðarhækkunin nú því í takt við meðaltal undanfarinna þriggja ára. Síðan mælingar hófust árið 1994 hefur vísitala íbúðaverðs hins vegar hækkað að meðaltali um 0,63% milli mánaða.

Ekki hærra raunverð í janúar

Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði í verði um 1,1% milli mánaða í janúar og verð sérbýlis hækkaði um 0,7 prósent. 12 mánaða hækkun fjölbýlis er nú 11,9%, en 12 mánaða hækkun sérbýlis er 15,2%.

Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið íbúðaverð í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, hefur ekki áður mælst hærra en í janúar. Það hækkaði um 1,1% milli mánaða eftir að hafa lækkað þrjá mánuði í röð. 12 mánaða hækkun raunverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu er nú 10,2%.

563 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var þinglýst í janúar sem er svipaður fjöldi og mánuðina á undan. Þeir voru hins vegar um 11% færri en í sama mánuði árið áður.