Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) lækkar í september, níunda mánuðinn í röð. Hins vegar er gildi fyrir ágúst endurskoðað upp á við. Lækkun hagvísisins undanfarna mánuði er mesta samfellda lækkun frá árinu 2007. Þessi þróun ber vott um óvissu sem ríkir með efnahagshorfur nú á haustmánuðum. Þetta kemur fram í frétt á vef Analytica .

Fimm af sex undirliðum lækka frá í ágúst en mesta framlag til lækkunar hafa debetkortavelta og væntingavísitala Gallup. Komur ferðamanna um Keflavíkurflugvöll er eini undirliðurinn sem hækkar á milli mánaða. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er þó enn sterk. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.