Arion banki hagnaðist um sex milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og nemur arðsemi félagsins 12% á ársgrundvelli að því er fram kemur í afkomutilkynningu frá bankanum. Þar segir að afkoman sé umtalsvert umfram fyrirliggjandi spár greiningaraðila og hærri en á síðustu fjórðungum.

Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nam um 6,7 milljörðum króna og því verður hagnaður bankans tæpir 13 milljarðar króna á árinu 2020. Hagnaður bankans er því sá mest frá árinu 2017 eftir tvö erfið ár í rekstri árin 2019 og 2018.

Í tilkynningunni segir að hagnaður áframhaldandi starfsemi hafi numið um 8 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi og „þróast heilt yfir með mjög jákvæðum hætti, hvort sem hún er borin saman við þriðja ársfjórðung þessa árs eða fjórða ársfjórðung 2019.“ Fjármunatekjur og tekjur af fjárfestingareignum eru sagðar hafa verið sérlega góðar á fjórðungnum sem námu samtals um 2,8 milljörðum króna og hreinar niðurfærslur eru sagðar litlar sem engar.

Afskrifa tvo milljarða vegna eigna til sölu

Hins vegar tapaði bankinn ríflega tveimur milljörðum króna vegna eigna sem félagið er með til sölu. Þar vegur þyngst niðurfærsla á eignum í Stakksbergi ehf., sem unnið hefur að því undanfarin ár að koma kísilveri United Silicon aftur í gagnið og selja það í kjölfarið. Meðal annarra eigna sem bankinn er með til sölu er kortafyrirtækið Valitor og ferðaskrifstofusamstæðan Travelco.

Í tilkynningu frá bankanum er þó sá fyrirvari settur á að uppgjörið sé enn í vinnslu og endurskoðun ekki lokið og því kunni það að tak breytingum frá því það er birt þann 10. febrúar.

Þó sé enn áfram óvissa tengd áhrifum COVID-19 faraldursins á efnahagslífið sem tengist þróun eignasafns bankans svo sem útlánasafns og verðbréfastöðu. „Fjárhagslegur styrkur Arion banka er varðar eigið fé og lausafé er áfram mjög mikill sem auðveldar bankanum að takast á við þessar óvenjulegu aðstæður,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Afkoma Arion banka frá 2017 og fyrstu níu mánaða ársins 2020.