Vöru­skipta­halli í júní reyndist sá mesti í tvö ár, eða frá því í júní 2019. Halli á vöru­skiptum var 30,2 milljarðar króna og skýrist af ó­venjumiklum vöru­inn­flutningi. „Óhagstæð þróun vöruverðs, minni fiskútflutningur og aukin umsvif innanlands mun auka á vöruskiptahallann á næstunni en útlit er þó fyrir að utanríkisviðskipti verði í þokkalegu jafnvægi í ár,“ segir í greiningu Íslandsbanka .

Sjá einnig: Rígur á arabíuskaganum hamlar olíusamningi

Í síðasta mánuði voru fluttar inn vörur fyrir 88,9 milljarða króna, sem er mesti vöru­inn­flutningur í einum mánuði frá upp­hafi mælinga. Á föstu gengi hefur inn­flutningur að­eins mælst meiri í maí árið 2017. Inn­flutningur eykst því sam­fara styrkingu hag­kerfisins og vonum um að farið sé að sjá fyrir enda­lok far­aldursins.

Út­fluttar vörur námu um 58,7 milljörðum króna, sem er svipað og verð­mæti út­flutnings hefur verið undan­farna mánuði. Sjávar­af­urðir námu um helmingi vöru­út­flutnings, eða um 27 milljörðum króna, út­flutningur á áli nam 17 milljörðum króna og út­flutningur annarra iðnaðar­vara um 10 milljörðum.

„Þótt ál­verð hafi sótt veru­lega í sig veðrið undan­farið er verð­þróun á heims­markaði þó al­mennt fremur ó­hag­stæð fyrir vöru­skiptin enn sem komið er. Verð sjávar­af­urða hefur enn ekki náð fyrri hæðum eftir. Hins vegar hafa hrá­vörur, mat­vörur og elds­neyti al­mennt hækkað veru­lega í verði síðustu fjórðunga," segir í greiningunni.