„Grunnhugmyndin er sú að geta boðið fyrirtækjum sem stunda lánaviðskipti fjártæknilausnir, bæði undir eigin vörumerkjum sem og að vinna bakendaþjónstu fyrir önnur fyrirtæki,“ segir Sigurður sem fékk hugmyndina að þjónustunni frá Svíþjóð.

„Ég hef séð þessa þróun, sem hefur verið að eiga sér stað erlendis, en það vantaði svona þjónustu á markaðinn hér. Með app- og sjálf- virknivæðingunni er núna margt mögulegt sem hefði ekki verið einfalt að gera fyrir einhverjum árum síðan.“

Sigurður segir að skipta megi starfsemi Greiðslumiðlunar upp í fjögur svið. „Í fyrsta lagi er það sem við getum kallað skráningar- og greiðslulausnir, það eru kerfin Nóri, Hvati og Stund, sem má kalla eina fjölskyldu af kerfum sem vinna saman auk nýjasta kerfisins Redo. Nóri er elsti sprotinn og við getum sagt að hann sé kominn lengst í þroska, en það er skráningar- og greiðslulausn sem er m.a. bakendi heimasíðna flestra íþróttafélaga í landinu,“ segir Sigurður en því kerfi tengjast svo hin tvö.

„Nóri sér um að höndla alla skráningu iðkenda og greiðslur til íþróttafélaga. Hvati sækir sjálfvirkt frístundastyrk til viðkomandi sveitarfélags ef barn á þá inni á viðkomandi ári þannig að hann renni til íþróttafélagsins sem hluti af greiðslunni, en þetta gerist allt í einum viðskiptum. Stund er svo mannvirkjakerfi sem einfaldar sveitarfélögum að fylgjast með nýtingu fjármagnsins sem fer til íþróttafélaganna með því að halda utan um mætingar og nýtingu á mannvirkjum þeirra. Við erum svo einnig með öpp fyrir bæði forráðamenn og þjálfara þar sem öll samskipti þeirra, iðkenda og starfmanna félaganna geta átt sér stað inni í lokuðum hópum með fyllsta öryggi.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .