Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hagnaðist um 4,51 milljarð dollara, eða sem nemur 12,08 dollurum á hlut, á lokaársfjórðungi síðasta árs og ríflega tvöfaldaðist hagnaðurinn frá sama tímabili árið áður. Tekjur fjárfestingarbankans námu 11,74 milljörðum dollara og jukust um 18% frá sama tímabili árið áður að því er WSJ greinir frá.

Árið 2020 er ár sem margir vilja gleyma sem allra fyrst en svo er ekki í tilfelli Goldman Sachs. Heildartekjur fjárfestingarbankans námu 44,56 milljörðum dollara á árinu og hafa tekjurnar ekki verið hærri síðan árið 2009.

Hagnaður umfram vonir hjá Bank of America

Hagnaður Bank of America dróst saman um 22% á lokaársfjórðungi síðasta árs, í samanburði við sama tímabil árið áður. Bankinn, sem er sá næststærsti í Bandaríkjunum, skilaði 5,47 milljarða dollara hagnaði á fjórðungnum en árið áður hagnaðist bankinn um 6,99 milljarða dollara á sama tímabili. Hagnaður á hlut nam því 0,59 dollurum en greiningaraðilar höfðu reiknað með 0,55 dollara hagnaði á hlut.