Ráðgjafarfyrirtækið Capacent metur gengi bréfa Haga á 59,6 krónur á hlut í nýlegu verðmati á félaginu. Er félagið metið á 65,8 milljarða króna. Það er um 24% hærra verð en sem nemur markaðsvirði bréfanna við lokun markaða á miðvikudag en þá stóð gengi þeirra í 47,9 krónum á hlut sem samsvarar markaðsverðmæti upp á 52,8 milljarða króna. Metur Capacent því verðmæti Haga 13 milljörðum hærra en sem nemur markaðsverðmæti fyrirtækisins. Hækkar ráðgjafafyrirtækið verðmat sitt um 3,1 krónu á hlut frá síðasta mati sem birt var í júlí.

Tekjuvöxtur meiri en reiknað var með

Í matinu segir að uppgjör Haga á fyrri helmingi rekstrarársins hafi verið heldur yfir væntingum Capacent. Tekjuvöxtur hafi verið meiri en Capacent reiknaði með en tekjur jukust um 5,6% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama ársfjórðung árið áður. Hafa verði þó í huga að Costco kom inn á markað á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Rekstrarhagnaður Haga fyrir afskriftir (EBITDA) hafi numið 2.378 milljónum króna á fyrri helmingi ársins og hafi verið nær óbreyttur frá sama tíma árið áður. Gera stjórnendur Haga ráð fyrir að EBITDA ársins verði um 5 milljarðar en rekstraráætlun Capacent gerir ráð fyrir að EBITDA verði 4,9 milljarðar króna. Til samanburðar var EBITDA Haga rúmlega 4,1 milljarður króna í fyrra.

Þá er tekið fram að fyrirhuguð kaup Haga á Olís muni hafa mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins en rekstrarhagnaður Olís fyrir afskriftir (EBITDA) var um 2,3 milljarðar króna árið 2017. EBITDA Haga muni því aukast um 45% við kaupin. Rekstraráætlun fyrir sameinað félag eða mat á samlegðaráhrifum kaupanna liggur þó ekki fyrir. Capacent hafi þó unnið gróft verðmat sem tekur aðeins tillit til samlegðaráhrifa að óverulegu leyti. Samkvæmt því muni virði Haga aukast um 18,5% en kaupin eru að hluta fjármögnuð með útgáfu hlutafjár. Þannig muni kaupin auka verðmæti hluthafa um 7,5% og verðmatsgengi með Olís innanborðs verði því 64,1. Capacent tekur það þó fram að framangreinda útreikninga beri að taka með öllum fyrirvörum vegna óvissu og takmarkaðra forsenda sem hægt sé að styðjast við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .