„Það hafa aldrei verið svona margir nemendur eins og núna,“ segir Sólveig Valgerður Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri fjallamennskunámsins. „Það eru í kringum 30 manns að byrja hjá okkur en yfirleitt hafa verið skráðir færri en tíu nemendur.“

Fjallamennskunámið er námsleið innan Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, sem er á Höfn í Hornafirði. Námið er samtals 60 einingar á tveimur önnum og samanstendur af vettvangs- og bóklegum áföngum. Nemendur fara t.d. í gönguferð, klettaklifur, jöklaferðir, fjallahjólreiðar og ýmislegt fleira þar sem hver ferð er einn áfangi út af fyrir sig. Bóklegu áfangarnir eru síðan kenndir í fjarnámi. Kennarar taka upp fyrirlestra sem nemendur geta horft á hvenær sem er. Nemendur hafa því haft tök á að vinna samhliða náminu, að sögn Sólveigar.

„Námið okkar er frábrugðið öðrum sambærilegum skólum þar sem við bjóðum upp á fjallaleiðsögn sem er okkar sérhæfing. Staðsetningin hér á Höfn er frábær að því leyti að við erum með jöklana og fjöllin í bakgarði skólans sem er einstakt.“

Hún segir að skólinn hafi farið í markaðsátak í vor. Það fólst í aukinni virkni á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Einnig voru fyrri nemendur og kennarar hvattir til að hafa samband við einstaklinga sem hefðu mögulega áhuga á náminu. Svo var sett upp sérstök heimasíða fyrir fjallamennskunámið, fjallanam.is, sem varð fyrir vefárás í sumar en unnið er að því að koma henni í fyrra horf.

„Fjallamennskunámið náði ekki jafn miklu flugi eins og við hefðum viljað í upphafi. Námið hefur verið í stöðugri þróun frá því að það byrjaði árið 2011. Núna erum við loksins að komast á þann stað sem við viljum vera með það,“ segir Sólveig.

Öðlast réttindi frá fagfélagi við útskrift

Hún telur einnig að áherslubreytingar skólans að taka inn staðla frá fagfélagi íslenskra fjallaleiðsögumanna, AIMG, hafi hjálpað að draga fólk að. Núna útskrifast nemendur með réttindi innan fagfélagsins. „Nemendur eru að fá aðeins meira fyrir námið í dag. Nemendur hafa sankað að sér mikilli þekkingu og reynslu í náminu, en það hefur vantað að fólk útskrifist með réttindi. Við erum í raun að koma til móts við atvinnulífið með því að taka inn þessa gæðastaðla. Grunnnámskeið frá AIMG í fjalla- og jöklaleiðsögn eru því frábær viðbót við námið og settur það upp á enn hærra plan. Mörg fyrirtæki í afþreyingaferðaþjónustu setja þessi námskeið sem skilyrði fyrir starfsmenn að hafa lokið til að geta starfað á jöklum eða fjöllum.“

„Síðan spila breytingar á vinnumarkaði örugglega inn í en margir eru að leita leiða til að hafa eitthvað að gera í vetur, sérstaklega þeir sem starfa í ferðaþjónustunni. Það gæti verið einn áhrifaþáttur,“ bætir Sólveig við.

Að hennar sögn er nemendahópurinn mjög fjölbreyttur, karlar jafnt sem konur og fólk á öllum aldri, alveg upp í fimmtugt plús. „Fjallamennskunámið hentar vel fyrir fólk sem vill bæði auka sína eigin færni og þekkingu í fjallamennsku en líka fyrir fólk sem vill fara lengra og vinna við leiðsögn og fjallaleiðsögn.“

Sólveig var sjálf nemandi við skólann og hefur kennt á síðustu árum. „Margir af þeim sem voru með mér í náminu starfa við bæði fjalla- og almenna leiðsögn í dag. Einnig voru margir starfandi leiðsögumenn í náminu sem vildu bæta við sig þekkingu.“

Nokkur laus sæti eru enn í boði þar sem einhverjir hafa afskráð sig. Námið byrjaði á föstudaginn síðasta en fyrsta gönguferðin hefst á mánudaginn og þá þarf að mæta í fyrsta áfangann. „Við erum með laust pláss þangað til.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .