Hagnaður breska olíurisans BP var 6,2 milljarðar dala á síðasta ársfjórðungi og þar með sá mesti í yfir áratug, ef horft er fram hjá niðurfærslu á rússneska hluta rekstrarins vegna stöðvunar starfsemi þar, sem kostaði félagið yfir 25 milljarða dala. Velgengni reglulegs rekstrar félagsins er fyrst og fremst þökkuð óvenjumiklum tekjum af olíu- og gassölu.

Til samanburðar skilaði sama tímabil í fyrra 2,6 milljarða dala hagnaði, en hagnaður síðasta árs í heild var einnig sá hæsti í átta ár. Afkoman hefur kynt undir ákall um hvalrekaskatt á olíufélög.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Keir Starmer, sagði tölurnar styðja við slíkar tillögur. Financial times hefur eftir framkvæmdastjóra olíufélagsins, Bernard Looney að hann hafi skilning á afar erfiðum fjárhagsaðstæðum margra heimila, en hlutverk fyrirtækisins sé að skila arði til hluthafa – þar með talið milljónum ellilífeyrisþega – greiða sína skatta og fjárfesta í uppbyggingu breska orkukerfisins.

Talsmaður Borisar Johnson forsætisráðherra sagði slíkan skatt geta fælt fyrirtæki frá fjárfestingum í Norðursjó og kostað störf, en útilokaði þó ekki hugmyndina.