Fimm stærstu bílaumboðin högnuðust um 4,1 milljarð króna sín á milli í fyrra eftir ríflega 300 milljóna tap árið áður. Samanlagður hagnaður Toyota, Öskju, Brimborgar, Heklu og BL hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári þrátt fyrir að nýskráningar bifreiða, ríflega 22 þúsund, hafi verið talsvert færri en árin 2015-2017.

Stóraukin eftirspurn samhliða skertu framboði vegna faraldursins virðist hafa skapað afar hagfelldar aðstæður fyrir umboðin eftir magurt árið á undan. Stríðið í Úkraínu hefur aukið enn á skortinn til skamms tíma, en bílaframleiðsla er nú komin á fullt skrið og búist er við að framboðið fari að ná upp í eftirspurn á ný þegar líða tekur á árið.

Þótt faraldurinn hafi verið efnahagslegt áfall leiddi samspil stuðningsaðgerða stjórnvalda, lækkunar stýrivaxta og samdráttar í stórum útgjaldaflokkum til þess að margir höfðu mikið á milli handanna. Viðsnúningurinn á bílasölumarkaðnum var því þegar kominn vel í gang þegar árið 2021 bar að garði.

Bílaumboðin
Bílaumboðin

Leiðrétt: Afkoma Hekla var jákvæð um 741,6 milljónir árið 2021 en ekki 372,0 milljónir.

Bílaleigurnar kláruðu lagerinn
„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir nýjum bílum, og notuðum reyndar líka, ekki minna þar,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, sem einnig rekur félagið TK bíla sem er sölu- og þjónustuaðili á meðan hitt sér um innflutning.

Úlfar segir skortinn í fyrra ekki aðeins hafa verið tilkominn vegna faraldursins og þeirrar röskunar á framleiðslukeðjum sem hann olli. Bílaleigurnar – sem kaupa alla jafna stóran hluta af sölu umboðanna á hverju ári – hafi lagt inn sínar pantanir mun seinna en vanalega sem hafi gengið verulega á lager umboðanna.

„Ef þú ætlar að tryggja að það verði til bílar fyrir leigurnar að vori og fyrripart sumars þá þarftu að gera ráðstafanir fyrir áramót. Eðlilega voru þær hins vegar ekki tilbúnar til þess í lok árs 2020 að fara að panta bíla hjá okkur. Maður skilur það auðvitað.“

Afkoma og nýskráningar
Afkoma og nýskráningar

Stjórnendur Toyota hafi þó metið stöðuna þannig í ársbyrjun að þegar á hólminn kæmi yrði nokkur eftirspurn hjá bílaleigunum, og gert ráðstafanir samkvæmt því. Leigurnar pöntuðu svo mjög seint síðasta vor, en um leið og það gerðist tóku þær að sögn Úlfars mjög mikið til sín.

„Fyrir vikið var enginn teljandi lager af bílum hjá umboðunum eins og venjan er, þeir seldust bara um leið og þeir komu til landsins. Það skapaði þónokkra spennu á markaðnum, og þegar eftirspurnin er mikil á sama tíma þá segir það sig sjálft að menn spila vel úr því sem þeir hafa,“ segir Úlfar og vísar þar vísast til verðlagningar bílaumboðanna.

„Salan hefði örugglega getað orðið meiri hjá öllum ef leigurnar hefðu verið tilbúnar að taka ákvörðun fyrr, þó það hafi ekki verið hægt að ætlast til þess.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .