Fjárfestingarsjóðurinn Icelandic Tourism Fund I (ITF) sem er í rekstri Landsbréfa hagnaðist um 339 milljónir króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins samanborið við 368 milljóna hagnað árið 2017. Hreinar fjárfestingartekjur félagsins námu 431 milljón króna samanborið við 460 milljónir árið áður.  Gangvirðisbreyting eignarhluta í félögum námu 417 milljónum miðað við 491 milljón í fyrra á meðan vaxtatekjur hækkuðu úr 40 milljónum í tæpar 50 milljónir. Eignarhlutir sjóðsins í  félögum námu 3.242 milljónum í árslok 2018 en þá átti sjóðurinn í ellefu félögum. Ekki var fjárfest í nýjum félögum á árinu en sjóðurinn seldi 26% hlut sinn í Eignarhaldsfélaginu Perla norðursins sem stendur að uppsetningu náttúrusýningar í Perlunni í Reykjavík fyrir 413 milljónir króna.

Í byrjun árs var greint frá því að ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefði keypt hluti sjóðsins í fimm fyrirtækjum. Samkvæmt ársreikningnum nam bókfært virði þessara eigna um 2 milljörðum króna í árslok. 94% hlutur í Into the Glacier var metinn á 1.387 milljónir en Arctic keypti félagið að fullu og nemur heildarvirði þess því 1.476 milljónum sem er þó 8% lægra en árið á undan. 60% hlutur í Borea Adventures á Ísaf­irði var metinn á 75 milljónir, 70% hlutur í Óbyggðasetrinu á Egilsstöðum var metinn á 140 milljónir auk þess sem 60% hlutur í Welcome Entertainment er metinn á 20 milljónir en bókfært verð þessara þriggja hluta var óbreytt milli ára. Þá er 39% hlutur í ferðaþjónustu í Raufarhólshelli metinn á 290 milljónir en sá hlutur var metinn á 31 milljón í árslok 2017.