Í nýju verðmati Jakobsson Capital er Sýn verðmetið á 14,5 milljarða króna, sem er 16% yfir 12,5 milljarða króna markaðsvirði félagsins. Í verðmatinu nemur því verð hvers hlutar 49 krónum en gengi hlutabréfa Sýnar nemur 42 krónum á hlut.

Í verðmatinu segir að afkoma Sýnar á síðasta ári hafi verið undir væntingum. Rekstrarhagnaður, sem nam 161 milljón króna, hafi verið lítillega lakari en gert var ráð fyrir. Hins vegar hafi sjóðsstreymi verið umtalsvert sterkara en greinandi hafi gert ráð fyrir. Handbært fé frá rekstri hafi numið 5,9 milljörðum króna árið 2020, samanborið við 5,4 milljarða króna árið 2019. Frjálst fjárflæði til hluthafa hafi því aldrei verið sterkara en árið 2020 þrátt fyrir að afkoman hafi aldrei verið lakari.

Þá segir greinandinn að ekki sé dregin fjöður yfir það að rekstur Sýnar hafi verið þungur og einkennst af varnarbaráttu. Faraldurinn hafi haft meiri áhrif á rekstur félagsins en hann hafi óttast.

Í öllum áskorunum felist þó tækifæri og ef einhver sé naskur á að finna þau og nýta sé það forstjóri Sýnar. Mikil breyting verði á efnahagsreikningi Sýnar er óvirkir farsímainnviðir verði seldir og keyptir til baka á kaupleigu á hagstæðari kjörum en greinandi hafi trúað í fyrstu.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun gekk Sýn í gær frá sölu á fjarskiptainnviðunum til bandaríska félagsins Colony Capital með sex milljarða króna söluhagnaði og seldi 49,9% hlut í færeyska hlutdeildarfélaginu P/F 20.11.19 á milljarð króna.