Spjallsmáforritið Discord, sem er vinsælt meðal tölvuleikjaspilara, ku vera til sölu á um 10 milljarða dala. Microsoft er á meðal áhugasamra kaupenda, að því er kemur fram í frétt CNBC um málið.

Skömmu eftir opnun markaða í morgun, í kjölfar fregnanna, hækkaði hlutabréfaverð Microsoft um ríflega 1%.

Microsoft hefur um nokkra hríð reynt að festa kaup á samfélagsmiðli. Til að mynda var fyrirtækið orðað við 30 milljarða dala kaup á starfsemi TikTok í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump og fleiri háttsettir innan bandaríska stjórnvöld kröfðust sölu á umræddri starfsemi. Höfðu forsetinn fyrrverandi og samstarfsmenn hans áhyggjur af því hvernig öryggismálum kínverska móðurfélagsins væri háttað.

Það fór þó svo að lokum að Oracle og Walmart hrepptu hnossið en viðskiptin eru þó enn í óvissu eftir að skipt var um stjórn í Bandaríkjunum og Joe Biden tók við völdum.

Samkvæmt frétt CNBC er virkur fjöldi notenda á hverjum mánuði um 140 milljónir, en til samanburðar er mánaðarlegur notendafjöldi Twitter um 192 milljónir. Helsta tekjulind fyrirtækisins er áskriftarsala á svokallaðari vildarþjónustu (e. premium service) sem gefur notendum fleiri möguleika á að uppfæra prófíl sinn, m.a. að hlaða upp myndböndum og myndum í hárri upplausn. Hafa notendur tvo greiðslu valmöguleika; að greiða 9,99 dali í hverjum mánuði eða að greiða 99,99 dali fyrir ársáskrift.