Mið-Afríkulýðveldið hefur gert Bitcoin að lögeyri í landinu, að því er kemur fram í grein hjá BBC . Þrátt fyrir að vera ríkt af auðlindum á borð við demanta, gull og úran, er ríkið eitt það fátækasta í heimi.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að ráðstöfunin setji landið á kortið sem eitt djarfasta og framsýnasta land heims.

Til að geta nota rafeyri er nauðsynlegt að hafa aðgang að internettengingu, eitthvað sem einungis 4% íbúa lýðveldisins búa við, samkvæmt vefsíðunni WorldData.info .

Lýðveldið notar gjaldmiðilinn CFA franka í gegnum Frakkland, eins og flest önnur frönsk nýlenduríki í Afríku.

Sjá einnig: AGS biðlar til forseta El Salvador

El Salvador varð fyrsta landið til að gera Bitcoin að lögeyri í september í fyrra, undir leiðsögn forsetans Nayib Bukele. Bukele vonaðist til þess að með því að gera rafeyrinn að lögeyri í landinu myndi hann hjálpa til við að ýta mannkyninu í rétta átt.

Fyrr á árinu biðlaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til forseta El Salvador, Nayib Bukele, að fjarlægja Bitcoin sem lögeyri í landinu. Sagði sjóðurinn Bitcoin ógna fjármálastöðugleika, fjárhagslegum heilleika og neytendavernd.