Fyrrum afleiðumiðlari hjá Deutsche Bank sagði fyrir rétti að yfirmaður sinn hafi skipað sér að stunda samráð með öðrum bönkum til að hafa áhrif á mælingar millibankavaxta í London.

Tim Parietti, afleiðumiðlarinn sem vann hjá Deutsche Bank í 12 ár, sagði yfirmann sinn, Matthew Connolly, hafa skipað sér að deila upplýsingum um viðskipti sín fyrir bankann með starfsmönnum annarra banka sem sáu um að skila inn gögnum sem notuð voru til að reikna út LIBOR (London interbank offered rate), millibankavexti í London. Vaxtastig hundruða þúsunda milljarða króna virði af fjármálagerningum er tengt LIBOR-vöxtum.

Connolly er sakaður, ásamt Gavin Black, um að hafa handstýrt mælingunni með lygum og samráði .

Verjendur Connolly og Black segja Parietti hinsvegar tilbúinn að ljúga hverju sem er til að koma sem best út úr málaferlunum sjálfur; hann hafi upphaflega sagt LIBOR-misferlið hafa átt sér stað frá 2006 til 2010, en nú segi hann það aðeins hafa varað til ársins 2008, sem þýði að 9 milljón dollara, um milljarð króna, kaupaukagreiðsla sem hann fékk árið 2010 falli ekki undir ágóða af misferlinu og Parietti fái því að halda kaupaukanum eftir.